„Hann er á lífi og það er það sem skiptir máli,“ segir Katrín Rafnsdóttir, móðir 11 ára gamals drengs sem slasaðist illa í Mosfellsbæ í gærmorgun þegar framdekkið losnaði af reiðhjóli hans. Fjölskyldan telur að dekkið hafi vísvitandi verið losað af hjólinu og segist Katrín hafa heyrt um fjölmörg dæmi um slíkt.
Atvikið átti sér stað þegar drengurinn var á leið í skóla á hjóli sínu. Hjólaði hann yfir litla hraðahindrun sem varð til þess að dekkið losnaði af og hann flaug af hjólinu. „Hann er á miklum hraða og rennur um þrjátíu metra á andlitinu,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.
Drengurinn hljóp að næsta húsi þar sem húsráðandi tók á móti honum alblóðugum og kom honum til hjálpar. Katrín segir son sinn hafa fengið mikið áfall og verið í losti allan gærdaginn. „Hann er ekki eins sjokkeraður núna en hann er að átta sig á þessu og er allur að skríða saman. En þetta er ofboðslegt andlegt áfall sem ég er að upplifa hjá honum núna.“
Alls þurfti að sauma sex spor, þar af tvö á innanverða vörina, auk þess sem gat kom á efri vörina sem sauma þurfti saman. Þá þurfti að sauma spor í ennið líka.
Við nánari athugun á hjólinu kom fjölskyldan auga á að pinni sem notaður er til að festa dekkið hafi verið farinn af. „Við keyptum annað hjól fyrir dóttur okkar frá sama framleiðanda og þessi pinni er pikkfastur þar,“ segir Katrín og bætir við að hjól sonar síns sé nýtt. „Auðvitað getur allt gerst en mér finnst ólíklegt að þetta hafi gerst af sjálfu sér.“ Fjölskyldan mun núna í framhaldinu láta skoða hjólið.
Katrín segist þó ekki vera að leita að sökudólg, en vonast til þess að umræðan um málið verði til þess að atvik sem þessi muni ekki gerast aftur. „Ég held að enginn ætli að gera neinum neitt illt. Þetta eru örugglega bara börn að fikta og vita ekki hvernig afleiðingarnar geta orðið,“ segir hún.
Katrín greindi frá atvikinu á Facebook í gær á umræðuvettvangi fyrir íbúa Mosfellsbæjar. Einhverjir þar sögðust kannast við vandann sem hún nefnir, að börn eða unglingar losi framdekk á hjólum annarra. „Það var meira að segja einn sem sagði að þetta hefði gerst árið 1988 hérna í Mosó og barnið fór eins og minn, svo það virðist vera löng saga um þetta,“ segir hún og bætir við að hún hafi einnig fengið ábendingar um svona lagað á Akranesi og víðar.
Drengurinn er mikið bólginn í andliti og getur lítið tjáð sig að sögn Katrínar. Hún segist þó þakka fyrir að sonur sinn hafi verið með hjálm, enda hefði mun verr getað farið ef hann hefði ekki verið með hjálm. „Hjálmurinn bjargaði klárlega lífi hans,“ segir Katrín. „Hjálmurinn er allur rispaður og ónýtur og við sjáum að hann hefur tekið mesta fallið.“
Hún segist vonast til þess að atvikið veki fólk til vitundar um mikilvægi hjálma. „Ég sjálf er ekki búin að vera að nota hjálm og það hefur hingað til verið hann sem minnir mig á það. Ég hef trassað að kaupa mér hjálm en ég ætla ekki á hjól núna fyrr en ég er búin að fá mér hjálm. Þetta var rosalegur lærdómur fyrir mig og alla í kringum okkur.“