Landamærahlið orðin sjálfvirk

Jón Pétur Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum hleypir fyrsta farþeganum í …
Jón Pétur Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum hleypir fyrsta farþeganum í gegnum ný sjálfvirk landamærahlið sem opnuð voru klukkan 9:00 á laugardagsmorgun. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

Sex ný sjálfvirk landamærahlið á Keflavíkurflugvelli, sem munu auka afköst til muna, voru tekin í notkun klukkan níu á laugardagsmorgun. Hliðin eru í nýrri 7.000 fermetra viðbyggingu sem var tekin í notkun á sama tíma. Fyrir breytingar á flugvellinum fóru um 2.600 farþegar um landamærin á klukkustund en verða 3.700 þegar fullum afköstum verður náð í haust að loknum breytingum.  

Notast er við nýja tölvutækni sem gerir flugfarþegum kleift að skanna sjálfir vegabréfið sitt og á meðan greinir tölva andlit einstaklingsins til að sannreyna hvort mynd og vegabréf sé hið sama. Sambærileg tölvutækni er í sjálfvirkum landamærahliðum á flugvöllum erlendis.

„Þetta er liður í því að geta tekið á móti svona mörgum farþegum sem fjölgar á hverju ári, að þeir geti farið sjálfir í gegnum sjálfvirkt kerfi,“ segir Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi ISAVIA

Landamærahliðin eru í suðurhluta flugstöðvarinnar, þeim hluta sem tekinn var í notkun þegar Schengen-landamærasamstarfið hófst hér á landi árið 2001. Þeir flugfarþegar sem fara yfir til Bretalands eða Bandaríkjanna auk þeirra sem millilenda hér nota landamærahliðið. 

Auk stækkunar landamærasalarins bætir nýja viðbyggingin svæðið fyrir farþega, verslanir og gangurinn milli norður- og suðurbygginganna breikkar einnig. 

Lögreglan sinnir vegabréfaeftirlitinu. 

Fyrsti farþeginn var leystur út með blómum og gjafabréfi.
Fyrsti farþeginn var leystur út með blómum og gjafabréfi. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka