Aðkoma sérsveitar matsatriði hverju sinni

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Þeir atburðir sem nýverið áttu sér stað í London, þar sem hryðjuverkamenn beindu aðgerðum sínum að saklausum borgurum, er meðal þess sem kallar á að vopnaðir sérsveitarmenn séu sýnilegri en áður á stórum útihátíðum hér á landi. Þetta segir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri í samtali við mbl.is.

Hann tekur þó fram að ekki sé talin stafa einhver sérstök ógn af fjöldasamkomum hér á landi í sumar. Haraldur segir sérstakar ráðstafanir lögreglunnar og þátttöku sérsveitarinnar á stórum og fjölmennum viðburðum í sumar vera tímabundnar og háðar mati hverju sinni. „Þetta er gert til þess að tryggja fyrst og fremst öryggi almennings og vernda almenning, og til þess að geta brugðist skjótt við ef eitthvað kemur upp á,“ segir Haraldur.

„Þetta er ákveðið matsatriði og þetta var okkar mat. Við fórum yfir þetta og þetta var okkar niðurstaða. En ég tek fram að þetta er tímabundin ráðstöfun,“ segir Haraldur, og vísar þar m.a. til þess að vopnaðir sérsveitarmenn stóðu vörð í Litahlaupinu um helgina.

Skilur sjónarmið en varhugavert að vekja ótta

Spurður um afstöðu sína til þess sjónarmiðs, sem Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur meðal annars haldið á lofti, um að almenningur þurfi að vera betur upplýstur um það þegar lögregla búist vopnum, segist Haraldur sýna þeim ábendingum skilning.

„Ég skil alveg þessar ábendingar en sérsveitin er vopnaða lögreglan í landinu. Hún er sú sveit sem er ætíð undir vopnum. Íslendingar eru orðnir vanir því að sjá sérsveitina vopnaða og ég held að langflestir séu ekki að stoppa við það að þeir sjái sérsveitarmenn vopnaða, það er bara eðli sveitarinnar að vera undir vopnum,“ útskýrir Haraldur.

„Spurningin er þessi; á að segja frá því þegar sérsveit sýnir vopnin á fjöldasamkomum? Sumir kunna að halda því fram að það sé eðlilegt að segja frá því. Við teljum að þetta sé eðli sveitarinnar og þegar hún er á staðnum þá megi eiga von á því að hún sé vopnuð,“ bætir hann við.

Hann kveðst skilja það sjónarmið að ef til vill hefði mátt láta vita af því fyrir fram að sérsveitin myndi birtast á fjöldasamkomum, aftur á móti vilji embætti ríkislögreglustjóra einnig varast það að ala á ótta meðal almennings. „Ég skil það sjónarmið, en það má líka halda því fram að ef við hefðum gefið út einhvers konar viðvaranir um þetta að þá hefði nú það kannski kallað á einhvers konar óróleika og óvíst að fólk treysti sér hreinlega til að koma á staðinn og teldi að það væri einhver sérstök ógn sem þar væri yfirvofandi,“ útskýrir Haraldur.

Það kunni einnig að vera varhugavert, enda sé það fyrst og fremst helsta hlutverk lögreglu að tryggja öryggi almennings og bregðast skjótt og örugglega við, kunni eitthvað að koma upp á.

„Lögreglan, hún þarf að vera viðbúin öllu og hún getur ekki horfið af vettvangi ef eitthvað kemur upp á í svona mannþröng og leitað eftir vopnum sínum, annaðhvort á lögreglustöðinni eða í lögreglubifreið,“ segir Haraldur. Þá þurfi lögregla einnig að tryggja það að almenningur komist á brott og að hjálparsveitir komist á vettvang ef svo ber undir. Örðugt sé fyrir lögreglu að komast á vettvang þegar það er mikill mannfjöldi þannig að best sé að hún sé sem næst almenningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert