Segir Stöð 2 brjóta á heiðursrétti

Lífs-myndirnar skörtuðu tveimur af efnilegustu grínleikurum þjóðarinnar, þeim Eggerti Þorleifssyni …
Lífs-myndirnar skörtuðu tveimur af efnilegustu grínleikurum þjóðarinnar, þeim Eggerti Þorleifssyni og Karli Ágústi Úlfssyni í hlutverkum Þórs og Danna. Mynd úr safni.

Boðuð sjónvarpssýning Stöðvar 2 á hinum svokölluðu Lífs-myndum (Nýtt líf, Dalalíf og Löggulíf), felur í sér mjög gróft brot á heiðursrétti höfundar. Þetta segir leikstjóri myndanna, Þráinn Bertelsson.

Samkvæmt dagskrá stöðvarinnar fyrir laugardaginn og þjóðhátíðardaginn 17. júní verða myndirnar sýndar í röð hver á eftir annarri frá klukkan 19.10 til 23.40. Skrifar Þráinn á síðu sína að ánægjulegt sé að sjá að myndirnar skuli enn vera taldar boðlegt dagskrárefni að kvöldi þjóðhátíðardagsins.

„Þessar myndir hafa orðið lífseigari og vinsælli heldur en mig nokkurn tímann óraði fyrir og var ég þó með bjartsýnni mönnum á þeim árum sem þær voru gerðar,“ skrifar Þráinn.

„Hitt er verra að þessi boðaða sjónvarpssýning er ekki með mínu leyfi og það er skýrt og mjög gróft brot á heiðursrétti höfundar að bjóða almenningi upp á að sjá afrit af 30 ára gömlum og gatslitnum sýningareintökum sem á sínum tíma þurftu að þola rispur og slit á  ferð gegnum flestar kvikmyndasýningavélar í kvikmyndahúsum landsins,“ bætir hann við.

Frá tökum á myndinni Löggulíf.
Frá tökum á myndinni Löggulíf. Mynd úr safni.

Segir hann þá engan vafa leika á því að Nýtt líf ehf. og hann sjálfur eigi einvörðungu rétt til eintakagerðar af upprunalegu filmunum. Framkoma Senu hf., sem selt hafi „hálfri þjóðinni“ DVD-eintök af myndunum, gerðum eftir fornum bíósýningareintökum, „sem fyrirtækið komst yfir ásamt fleiri myndum við gjaldþrot mér óviðkomandi aðila í kvikmyndabransanum hefur verið ótrúlega hráslagaleg og batnaði því miður ekki þegar þetta fyrirtæki skipti um kennitölu,“ fullyrðir Þráinn svo.

Að lokum segir hann sýninguna ekki aðeins sýna „fullkomna fyrirlitningu á höfundarrétti, heiðursrétti og íslenskri kvikmyndagerð“, heldur einnig á rétti íslenskra áhorfenda til faglegra vinnubragða „af hálfu þeirra sem bera þessar myndleifar á borð“. Íslensk kvikmyndagerð eigi betra skilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert