Skoða að senda sérsveit á Þjóðhátíð

Til skoðunar er að verða við beiðni lögreglustjórans í Vestmannaeyjum …
Til skoðunar er að verða við beiðni lögreglustjórans í Vestmannaeyjum og senda sérsveitarmenn á svæðið um verslunarmannahelgina. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Auknar öryggisráðstafanir lögreglu og aðkoma sérsveitar hefur ekkert með mannafla lögreglunnar að gera eða það hversu margir lögreglumenn starfa hjá embættum lögreglunnar um landið. Þetta segir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri í samtali við mbl.is, spurður hvort lögreglan hafi bolmagn til þess að auka öryggisgæslu á fjölmennum samkomum um landið í sumar.

Aðallega hefur verið einblínt á höfuðborgarsvæðið í þessum efnum að sögn ríkislögreglustjóra en ekki er útilokað að sérsveitin verði til taks á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um Verslunarmannahelgina.

„Þetta hefur fyrst og fremst með það að gera að tryggja skjót viðbrögð lögreglumanna til að koma í veg fyrir einhvers konar voðaverk og til að tryggja öryggi almennings,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is. „Við höfum aðallega verið að einblína á þessar stóru samkomur á höfuðborgarsvæðinu þar sem að tugir þúsunda manna eru saman komin hér á mjög afmörkuðum þröngum bletti,“ segir Haraldur.  

Undanfarin ár hafi hann þó fengið óskir um það frá lögreglunni í Vestmannaeyjum þess efnis að sérsveitin væri staðsett í Vestmannaeyjum um og yfir verslunarmannahelgina. Það sé nú til skoðunar. „Við erum að hugleiða það núna hvort að sveitin verði í Vestmannaeyjum um næstu verslunarmannahelgi, þannig að við getum þá farið að óskum lögreglustjórans í Eyjum, en það er ekki búið að taka ákvörðun um það ennþá,“ segir Haraldur.

Ræðir reglulega við ráðherra

Í samtali við mbl.is um helgina sagðist Sigríður Andersen dómsmálaráðherra munu ræða það við ríkislögreglustjóra hvort og þá með hvaða hætti skuli upplýsa almenning um það þegar lögregla býst vopnum. Aðspurður hvort ráðherra hafi þegar rætt þau mál við Harald segist hann reglulega eiga samtal við ráðherra. Þau hafi meðal annars átt fund í gær sem boðaður hafi verið áður en umræða um vopnaburð lögreglu fór af stað um helgina.

„Það var mjög góður og ánægjulegur fundur með henni. Svo náttúrlega kom þjóðaröryggisráð saman seinni partinn þannig að mikil umræða var náttúrlega um löggæsluverkefni, hryðjuverkaógn og Cyber-ógn,“ segir Haraldur. Hann segir netöryggismál og hryðjuverkaógn vera mál sem geta haldist í hendur og því sé ekki síður mikilvægt að hafa góða yfirsýn yfir netöryggismálin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert