Þingnefnd ræðir vopnaburð lögreglu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er formaður allsherjar- og menntamálanefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis hefur orðið við beiðni Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Vinstri grænna sem á sæti í nefndinni, og hyggst boða til fundar í nefndinni á föstudag til að ræða aukinn vopnaburð lögreglu. Andrés óskaði eftir slíkum fundi í gær og kallaði þá einnig eftir því að inn­an­rík­is­ráðherra, rík­is­lög­reglu­stjóri, lög­reglu­stjór­inn á höfuðborg­ar­svæðinu auk full­trú­a Reykja­vík­ur­borg­ar verði boðaðir á fund­inn.

„Ég varð við beiðni VG um fund Allsherjar- og menntamálanefndar til að ræða þróun löggæslumála í ljósi frétta undanfarinna daga um aukinn vopnaburð. Stefnt er að halda fundinn á föstudag,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar. Hún segir það vera sjálfsagt mál að ræða stöðuna í nefndinni.

„Ég tel gott að við sýnum að öryggismál séu í lagi og við gætum öryggis þegar mannfjöldi er samankominn. Ekki er um að ræða að almennir lögreglumenn beri vopn,“ segir Áslaug ennfremur. Þá segir hún lögreglu fara eftir áhættumati hverju sinni og að það sé síðan hlutverk dómsmalaráðherra að vera upplýstur um störf og fyriráætlanir lögreglu og að veita henni aðhald.

„Breyttar aðstæður krefjast breyttra áætlana og það þarf að meta stöðuna í hvert skipti. Ríkislögreglustjóri getur þá rætt stöðuna við nefndarmenn, en grundvöllurinn þarf að vera öryggi borgaranna. Það hefur verið tryggt vel hingað til og verður gert áfram,“ segir Áslaug að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert