Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, frétti af því í gegnum fjölmiðla að lögreglumenn skyldu bera vopn á fjöldasamkomum í Reykjavík.
Í kvöldfréttatíma Rúv sagðist hann hafa viljað fá upplýsingarnar með öðrum hætti.
Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að sérsveitarmenn beri skotvopn á fjöldasamkomum hérlendis í sumar. Þeir báru vopn í Litahlaupinu um síðustu helgi og þeir munu einnig gera það á hátíðarhöldunum á 17. júní og á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem fer fram um helgina.
„Mér hefði fundist það mjög eðlilegt, sérstaklega ef að baki býr einhvers konar nýtt hættumat, þá hefði verið eðlilegt að láta borgaryfirvöld vita, og eiginlega alveg nauðsynlegt,“ sagði Dagur við Rúv, spurður hvort hann hefði viljað fá upplýsingarnar fyrirfram.
Hann bætti við að vopnaburður lögreglu geti átt við þegar og ef tilefni sé til þess.