Vopnaðir íslenskir lögreglumenn þegar ástæða þykir til er ekkert nýtt. Þetta kemur fram í færslu sem Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, birtir á Facebook-síðu sinni í tilefni af umræðu um vopnaburð lögreglunnar þar sem fjölmenni hefur komið saman. Hann leggur þó áherslu á að hann hafi verið andvígur því að lögreglumenn væru vopnaðir við daglega löggæslu en enginn sé hins vegar að leggja það til.
„Ekkert vestrænt lýðræðisríki býr við þannig kerfi að stjórnmálamenn ákveði í hverju og einu tilviki hvort ástæða er fyrir lögreglu, á grundvelli hættumats, að hafa vopn tiltæk. En við höfum líka náð því fram að nú hittist Þjóðaröryggisráð reglulega og þar fá þjóðkjörnir fulltrúar almennings aðgang að hættumati og upplýsingum um viðbúnað við vá og þar er hægt að ræða það skynsamlega og í trúnaði,“ segir Árni Páll ennfremur.
Hins vegar hafi nú verið upplýst að breyttar aðstæður kalli á annars konar viðbúnað þegar mikill mannfjöldi komi saman. Þannig hafi í næstu nágrannalöndum Íslands verið gripið til aðgerða líkt og gripið hafi verið til í tengslum við landsleikinn við Króata á dögunum þar sem flutningabílum hafi verið lagt fyrir akstursleiðir á svæðum þar sem fótgangandi fólk hafi safnast saman og sérþjálfaðir vopnaðir lögreglumenn kallaðir út.
„Ef lögreglan metur það svo nú, í ljósi upplýsinga sem hún fær að rétt sé að sérþjálfaðir lögreglumenn búnir skotvopnum séu líka til taks, þá hlýtur að eiga að una við það mat. Annað gengur gegn öllum þeim meginreglum sem við höfum markað,“ segir Árni Páll. Rifjar hann upp viðbrögðin við voðaverkunum í Útey og Ósló í Noregi 2011.
Þáverandi forsætisráðherra Noregs, Jens Stoltenberg, hafi sagt að svara ætti slíkri ógn með meira lýðræði, meira gegnsæi og meiri mannúð. En aldrei með einfeldni. „Þess vegna eigum við að hafa skýrar leikreglur, gott eftirlit með þeim, gagnsæi um boðleiðir. En aldrei bjóða hættum heim.“