Reikigjöldin í Evrópu afnumin

Ferðalangar ættu að sjá símreikninginn minnka eftir 15. júní.
Ferðalangar ættu að sjá símreikninginn minnka eftir 15. júní. mbl.is/Golli

„Stóra myndin er að borgarar á EES svæðinu geti ferðast með farsímana og notað þá eins og í heimalandinu,“ segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, um nýja reglugerð sem afnemur reikigjöld fjarskiptafyrirtækja. 

Samgönguráðuneytið lauk innleiðingu á reglu­gerð Evr­ópu­sam­bands­ins í dag sem kveður á um af­nám reikigjalda en eftir 15. júní þarf ekki að að greiða sérstök reikigjöld þegar ferðast er til annars lands á EES svæðinu. Þetta gildir innan EES-svæðisins en ekki þegar ferðast er til annarra landa.

„Hugsunin er að þetta gildi alfarið fyrir símtöl og textaskilaboð. Einnig fyrir gagnanotkun en þá er fyrirtækinu heimilt að setja ákveðna varnagla og gagnaþök. Það kemur til vegna þess að þetta er íþyngjandi byrði á fjarskiptafélögin,“ segir Hrafnkell. 

Hvað gagnamagn varðar þá gilda reglur um þar sem símafyrirtækin hafa heimild til að setja mörk á hve mikið gagnamagn má nota samkvæmt innanlandskjörum. Ef slík mörk eru sett er símafyrirtækinu skylt að tilkynna notendum sínum hver slík mörk eru.

„Miðað við venjulegan borgara sem ferðast í 10 daga eða hálfan mánuði til útlanda á ári ætti þakið ekki að skipta máli.“

Skilyrðin um lágmarksmörk sem eru rúm og eiga að duga fyrir alla venjulega netnotkun, tölvupóst, lestur vefsíðna og fréttaveitna. Ef farið er yfir þessi mörk er farsímafyrirtækinu heimilt að innheimta reikiálag sem nú nemur að hámarki 1.110,91 kr. fyrir hvert gígabæti notkunar. 

Póst-og fjarskiptastofnun svarar ýmsum spurningum sem gætu vaknað hér.

Fjarskiptageirinn síkvikur

Guðfinnur Sigurvinsson, verkefnastjóri samskiptamála hjá Vodafone, segir að viðskiptavinir fyrirtæksins njóta mikils ávinnings með því að geta notað símtæki sín í Evrópu eins og hér heima. Hann telur að aukin notkun ferðamanna geti að einhverju leyti vegið upp á móti tekjuskerðingunni.

 „Það getur verið að ferðamenn bæti þetta upp, að þeir fari að nota símana meira hér á landi. Síðan er fjarskiptageirinn þannig að hann er síkvikur. Fastlínan er enginn tekjustofn lengur en hún var burðarás fyrir ekki svo löngu síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert