Ekki fást læknar til að manna afleysingar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu meðan á sumarleyfum stendur. Ástæðan er sú að það eru einfaldlega ekki til heilsugæslulæknar til að manna þessar stöður. Þetta segir Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
„Eðli málsins samkvæmt er samdráttur yfir sumartímann. Við náum ekki að ráða fyrir þá lækna fyrir sem eru í sumarleyfi. Við reynum þó að gæta þess að það séu nógu margir inni hverju sinni og högum sumarleyfismálum þannig að sem minnst röskun verði af. Auðvitað verður alltaf einhver röskun, en það eru ekki til læknar til að manna afleysingar. Það er staðreyndin,“ segir Svanhvít í samtali við mbl.is.
Þann 1. maí síðastliðinn var tekið upp nýtt greiðsluþátttöku- og tilvísanakerfi sjúklinga, en breytingarnar hafa meðal annars í för með sér aukinn kostnað við heimsóknir barna á aldrinum 2 til 18 ára, til sérfræðilækna, hafi þau ekki tilvísun frá heimilislækni. Aukning getur verið á bilinu 125 til 350 prósent. Með tilvísun er þjónustan hins vegar gjaldfrjáls. Markmiðið með nýja kerfinu er að gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Eðli málsins samkvæmt mun komum á heilsugæsluna fjölga, enda það tilgangurinn með breytingunum.
Búast má við því að foreldrar leiti í auknum mæli til heilsugæslunnar með börn sín, í stað þess að fara beint til barnalækna, sem teljast til sérfræðilækna, enda ekki á færi allra að greiða hærra gjald fyrir læknisþjónustu. Börn undir 18 ára aldri greiða hins vegar ekki komugjald á heilsugæslustöðvum.
Svanhvít segir ekki hægt að meta áhrif breytinga kerfisins strax, bæði vegna þess hve skammur tími er liðinn síðan þær tóku gildi og vegna sumarleyfa sem hófust fljótlega í kjölfarið. Það sem snýr að þeim hafi þó gengið nokkuð snurðulaust fyrir sig fram að þessu. „Í sjálfu sér hefur þetta gengið ágætlega og engin sérstök atvik komið upp. Í upphafi komu fjölmörg símtöl og fyrirspurnir og ákveðinn misskilningur sem var í gangi. Síðan verður tíminn að leiða í ljós hversu mikil aukning verður.“
Hún bendir á að það séu alltaf breyttar aðstæður yfir sumartímann og það sé því ekki einsdæmi nú að ekki fáist mannskapur í afleysingar. Það sé ekki hægt að tengja það við aukið álag vegna breytinga á kerfinu, enda hafi áhrifin enn ekki komið fram að ráði.
Svanhvít vill þó ekki meina að ófremdarástand geti skapast á heilsugæslustöðvum í sumar, enda sé aðgengið þokkalegt víða. „Það geta auðvitað verið mismunandi aðstæður eftir heilsugæslustöðvum, hvað varðar mönnun og fleira en ég veit að það er ágætt aðgengi að sumum stöðvum.“
Hvernig heilsugæslustöðvarnar munu takast á við aukið álag, sem óhjákvæmilega er búist við þegar áhrif breytinganna koma betur fram, segir Svanhvít tíminn verða að leiða það í ljós.
En eru nógu margir læknar innan heilsugæslunnar og nógu mikil endurnýjun í stéttinni til að takast á við aukinn fjölda sjúklinga?
„Við þurfum að meta það. Reglugerðin er þannig að það þarf ekki tilvísun fyrir yngstu börnin og börn sem eru með umönnunarmat. Það léttir töluvert á okkur,“ segir Svanhvít, en foreldrar þeirra barna geta leitað beint til sérfræðilækna án viðkomu á heilsugæslustöð.
Það kemur hins vegar fram í stjórnsýsluúttekt Ríkiskoðunar um Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, frá því í apríl að Heilsugæslan standi ekki að öllu leyti undir því markmiði að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Meginástæðurnar eru vankantar á skipulagi heilbrigðiskerfisins, takmarkaðar fjárveitingar til Heilsugæslunnar og skortur á aðhaldi með heilsugæslustöðvunum.
Heilsugæslan gagnrýndi ákveðna þætti í úttektinni og fullyrti að Ríkisendurskoðun „hefði mátt kynna sér málið betur“ og í skýrslunni væru „ályktanir sem eiga ekki við rök að styðjast og upplýsingar sem eiga ekki lengur við.“ Ríkisendurskoðun taldi ummælin þó gripin úr lausu lofti.