Tónlistarhátíðin Secret Solstice hefst í dag og leikið verður á tveimur sviðum þennan fyrsta dag, Valhöll og Hel. Dagskráin hefst klukkan 17:30 en mikil eftirvænting er fyrir bandarísku tónlistarkonunni Chaka Khan en hún stígur á svið 22:30 í kvöld.
Miðar á hátíðina seljast á sama hraða og í fyrra en Sveinn Rúnar Einarsson, kynningarfulltrúi hátíðarinnar, sagði í samtali við mbl að það færi að koma að því miðarnir seldust upp. „Það er um að gera að tryggja sér miða því þú vilt ekki upplifa Solstice í gegnum Snapchat,“ segir Sveinn.
Allt hefur gengið samkvæmt áætlun í þessu gríðarlega stóra verkefni en verið er að leggja lokahönd á undirbúning. „Við erum náttúrlega gríðarlega skipulögð og þetta er í fjórða sinn sem við höldum hátíðina og erum alltaf að læra,“ segir Sveinn.
Fyrir utan danspartíið í Laugardalshöllinni verða allir tónleikar utandyra svo enginn ætti að þurfa að óttast að missa af sínum uppáhaldstónlistarmanni. Einnig mun þetta koma í veg fyrir að gestir þurfi að standa í biðröðum.
Aðspurður hvort aðstandendur hátíðarinnar hafi áhyggjur á af því að valda nágrönnum ónæði vegna hávaða segist Sveinn ekki búast við að það verði vandamál. „Við höfum unnið ofboðslega vel með nágrönnum, við gefum til dæmis út afsláttarmiða á hátíðina til nágranna í Laugardalnum,“ sagði Sveinn og bætti við að ef fólk hefði athugasemdir væri hægt að senda beint netfangið nagranni@solstice.is.
Fyrstur á svið í Valhöll er hinn bandaríski Joaqopelli en hann byrjaði ferilinn einungis 11 ára gamall í Amazon-regnskóginum í Brasilíu. Næst á eftir er íslenska tónlistarkonan Þórunn Antonía en hún hefur verið gífurlega vinsæl allt frá unga aldri hér á landi. Þar á eftir koma Helgi Björns og félagar í SSSól, en hljómsveitin er 30 ára á þessu ári og munu þeir eflaust taka nokkra af sínum vinsælustu slögurum.
Þar á eftir eru Polar Beat movement, en það er blanda listamanna sem falla vel við stemminguna í kringum Chaka Khan. Á meðal þeirra sem koma fram eru Ari Bragi Kárason sem er einn besti trompetleikari Íslands og hljómsveitin Stuðmenn. Síðast en ekki síst mun tónlistarkonan Chaka Khan láta ljós sitt skína en margir bíða spenntir eftir því að hlýða á þessa mögnuðu söngkonu. Chaka Khan á að baki farsælan 40 ára feril og er þekkt fyrir sína einstaklega kraftmiklu rödd.
Stemningin á sviðinu Hel verður að öllum líkindum rafmögnuð í kvöld. Dagskrá hefst klukkan 21:00 með spænska plötusnúðnum Taniu Vulcano en hún hefur nánast 20 ára reynslu á stærstu klúbbum Ibiza. Þar á eftir stígur á svið Black Madonna en ásamt því að vera gríðarlega virtur plötusnúður er hún fær tónlistarframleiðandi.
Hinn bandaríski Seth Troxler tekur við keflinu en hann hefur spilað á stórum klúbbum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Kvöldið endar svo á engum öðrum en Kerri Chandler en hann er talinn einn af upphafsmönnum hústónlistar.