„Ennþá friðsöm og örugg þjóð“

Sérsveitarbifreið og lögreglumenn ríkislögreglustjóra.
Sérsveitarbifreið og lögreglumenn ríkislögreglustjóra. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hefði verið mjög vel þegið ef ríkislögreglustjóri hefði upplýst okkur í borginni um það að sérsveitarmenn með byssur yrðu á staðnum,“ segir Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur í samtali við mbl.is. Líf kom á fund allsherjar- og menntamálanefndar í morgun þar sem aukinn vopnaburður lögreglu var til umræðu.

Líf segir fundinn hafa verið góðan en kveðst ekki hafa fengið fullnægjandi rök fyrir því mati ríkislögreglustjóra að hafa vopnaða sérsveitarmenn sýnilega á stórviðburðum í borginni í vetur.

„Ég sá ekki þörfina til þess að hafa sýnilega vopnaða lögreglu á stórviðburðum í Reykjavík. Ég hef ekki séð sannfærandi rök fyrir því að það sé aukin hætta sem stafar af hryðjuverkaógn eða misindismönnum sem vilja skaða almenning. Það kom ekki mjög greinilega fram á fundinum,“ segir Líf, með þeim fyrirvara þó að hún hafi ekki setið allan fundinn og að ef til vill ætti eitthvað slíkt eftir að koma fram síðar á fundinum.

„Þrátt fyrir þessar hryðjuverkaárásir í Bretlandi og í Svíþjóð, þá hefur lítið breyst. Ég held að við séum ennþá friðsöm og örugg þjóð og okkur stafar ekki nein hætta af því að taka þátt í stórviðburðum og þar sem er fjölmenni,“ bætir Líf við. Hún kveðst hissa á því að borgaryfirvöld hafi ekki verið betur upplýst áður en ákvarðanir um aukna nærveru sérsveitarmanna voru teknar.

Líf er borgarfulltrúi Vinstri grænna og forseti borgarstjórnar.
Líf er borgarfulltrúi Vinstri grænna og forseti borgarstjórnar.

„Við ræddum það, vegna þess að borginni var aldrei tilkynnt um að það yrði vopnaburður, það var bara talað um aukinn viðbúnað sem gæti falist í því að það væru bara fleiri löggæslumenn. Þannig að ég held að það hefði þurft að taka þetta fyrir í borgarráði,“ segir Líf. „Ég held að við hefðum átt að fá betri upplýsingar um þetta.“

Hún segir fundarmenn vera sammála um að auka þurfi samtalið svo allir aðilar væru betur í stakk búnir til að taka utan um verkefnið sem sé bæði á vettvangi sveitarstjórnar, ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. „Við áttum bara mjög hreinskiptin samskipti sem er alltaf gott,“ segir Líf að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert