Konan á kassa í Bónus hefur ekki val

Konur koma til með að greiða meira fyrir læknisþjónustu í …
Konur koma til með að greiða meira fyrir læknisþjónustu í nýja kerfinu. mbl.is/Hjörtur

„Ég ótt­ast það að fleiri fresti lækn­is­heim­sókn­um og þá er kerfið að vinna gegn þeim sem það er ætlað að vinna fyr­ir. Allt snýr þetta að þessu háa greiðsluþaki. Það get­ur ekki verið til­gang­ur með nýju greiðsluþátt­töku­kerfi að fleiri fresti lækn­is­heim­sókn­um.“ Þetta seg­ir Gunn­ar Al­ex­and­er Ólafs­son heilsu­hag­fræðing­ur sem gagn­rýnt hef­ur nýja greiðsluþátt­töku- og til­vís­ana­kerfið í heil­brigðis­kerf­inu sem tók gildi 1. maí síðastliðinn.

Hann seg­ir nýja kerfið koma verst við kon­ur og þær komi til með að greiða meira fyr­ir lækn­isþjón­ustu en áður. Þá noti þær kerfið meira en karl­menn og kostnaður­inn auk­ist enn meira fyr­ir vikið. „Stór hluti kvenna á vinnu­markaði er ekki að ná 500 þúsund krón­um á mánuði. Þetta kerfi er ekki að vinna fyr­ir þær,“ seg­ir Gunn­ar.

Hann tel­ur nýja kerfið jafn­framt allt of flókið og þungt í vöf­um og það sé í raun ótrú­legt að tek­ist hafi að hanna svo flókið kerfi fyr­ir rúm­lega 300 þúsund manna þjóð.

Kon­ur koma verst út úr reikn­ings­dæm­inu

„Það er tvennt sem vinn­ur gegn kon­um í þess­um efn­um. Ann­ars veg­ar sú staðreynd að kon­ur eru með minni at­vinnuþátt­töku en karl­ar, og þær sem eru með at­vinnu eru al­mennt með lægri laun en karl­ar. Ef kon­ur nota heil­brigðis­kerfið meira og eru jafn­framt með lægri laun þá hitt­ir það þær kon­ur verr,“ seg­ir Gunn­ar og bend­ir í því sam­hengi á að greiðsluþakið sé allt of hátt. Í nýja kerf­inu er það um 70 þúsund krón­ur á 12 mánaða tíma­bili fyr­ir al­menna not­end­ur.

Það hvernig kerfið er upp­byggt ger­ir það að verk­um að kostnaður um 115 þúsund ein­stak­linga mun aukast frá því sem áður var. 40 þúsund ein­stak­ling­ar koma til með að greiða minna, en um 110 ein­stak­ling­ar koma til með að greiða það sama og í gamla kerf­inu. Gunn­ar seg­ir kon­ur koma verst út úr þessu reikn­ings­dæmi, meðal ann­ars af þeim ástæðum til­greind­ar eru hér að ofan.

Gunnar vill berjast fyrir því að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls.
Gunn­ar vill berj­ast fyr­ir því að heil­brigðisþjón­usta verði gjald­frjáls. Aðsend mynd

Gunn­ar tek­ur sem dæmi konu sem fór fimm sinn­um til sér­fræðilækn­is á síðasta ári og þurfti að greiða sam­tals um 37 þúsund krón­ur fyr­ir heim­sókn­irn­ar. Í nýja kerf­inu þarf hún að greiða 65 þúsund krón­ur fyr­ir sömu þjón­ustu. „í gamla kerf­inu var hver heim­sókn til sér­fræðings niður­greidd að hluta og af­slátt­ar­mörk­in lágu við 35 þúsund krónu þak. Í nýja kerf­inu fara niður­greiðslur rík­is­ins ekki að tikka fyrr en fólk hef­ur greitt allt að 70 þúsund krón­ur á ári. Þarna er reg­inn­mun­ur á,“ seg­ir Gunn­ar.

Hann bend­ir á að ís­lensk­ar rann­sókn­ir hafi sýnt fram á að fleiri eru að fresta heim­sókn­um til lækna út af kostnaði og tel­ur víst að sá hóp­ur muni aðeins stækka með nýja kerf­inu. „Við erum að auka ójöfnuð í kerf­inu. Fyr­ir þá sem eru með góðar tekj­ur, á kjararáðslaun­um, skipta 70 þúsund krón­ur engu máli. En fyr­ir kon­una sem starfar á kass­an­um í Bón­us, sem kannski er með 300 þúsund krón­ur í brútt­ó­tekj­ur, skipt­ir þetta öllu máli.“

Karl­maður á fer­tugs­aldri drauma­sjúk­ling­ur

Gunn­ar seg­ir drauma­sjúk­ling­inn vera karl­mann á aldr­in­um 30 til 40 ára. „Hann kem­ur ekki til lækn­is. Það er ekki sama með kon­urn­ar. Þær eru á barneigna­aldri og þurfa meðal ann­ars að hitta kven­sjúk­dóma­lækna. Þetta er ein­falt dæmi. Þegar við karl­arn­ir erum orðnir eldri þá fáum við auðvitað ýmsa kvilla, en kon­urn­ar fá þá líka. Kon­urn­ar verða líka eldri en við karl­arn­ir og sækja því þjón­ust­una meira og leng­ur.“

Ef dæmið er skoðað í enn víðara sam­hengi fara mæður lík­lega oft­ar með börn sín til lækn­is en feður og þar eykst kostnaður í mörg­um til­fell­um. Kostnaður við heim­sókn­ir barna til sér­fræðilækna hef­ur auk­ist um allt að 150 til 300 pró­sent, fyr­ir þá sem ekki hafa til­vís­un frá heim­il­is­lækni. Með til­vís­un er þjón­ust­an hins veg­ar gjald­frjáls. Gunn­ar bend­ir á að það hafi ekki all­ir tök á því að bíða eft­ir til­vís­un.

„Í grunn­inn er ég hlynnt­ur til­vís­ana­kerfi, en það má aldrei verða íþyngj­andi fyr­ir þá sem ætla að reyna að lækka kostnaðinn vil heil­brigðisþjón­ust­una. Þess vegna gagn­rýni ég tvennt varðandi þetta nýja til­vís­ana­kerfi. Það var ekki sett neitt auka fé til að taka á móti aukn­um fjölda sem vill fá til­vís­un. Staðan er þannig að ef þú ætl­ar að fá til­vís­un þá þarftu að bíða. Fæst­ir nenna því og greiða ein­fald­lega hærri kostnað hjá sér­fræðilækn­um. Ef við tök­um aft­ur kon­una á kass­an­um í Bón­us sem dæmi, þá hef­ur hún ekki þetta val. Fólk með meðal­tekj­ur og yfir hins veg­ar hef­ur val. Þarna kem­ur skýrt fram þessi ójöfnuður sem ég er að benda á.

Hitt sem ég vil benda á varðandi til­vís­ana­kerfið, er að það komið út í al­gjöra vit­leysu. Þú get­ur til dæm­is verið í meðferð hjá sér­fræðingi en þarft alltaf til­vís­un, jafn­vel upp á end­ur­kom­ur, ef þú vilt fá þjón­ust­una ókeyp­is. Það er bara rugl.“

Gunnar telur að fólk, þá sér í lagi konur, muni …
Gunn­ar tel­ur að fólk, þá sér í lagi kon­ur, muni veigra sér við leita til lækn­is vegna kostnaðar. Ásdís Ásgeirs­dótt­ir

Gunn­ar bend­ir á að þetta sam­ræm­ist ekki því sem kem­ur fram í lög­um, að aðgengi að heil­brigðisþjón­ustu skuli vera óháð efna­hag. „Þarna erum við að búa til þrep sem get­ur reynst mörg­um erfitt, og jafn­vel hindr­un að kom­ast yfir. Svo ég tali nú ekki um ef þú þarft meira á þess­ari þjón­ustu að halda en aðrir. Svo ég grípi til hag­fræðinn­ar þá er línu­leg teygni á milli þeirra sem nota þjón­ust­una mikið og hafa lág­ar tekj­ur. Ég geng því svo langt að segja að þetta kerfi er ekki að þjóna þeim hópi sem not­ar kerfið mest.“

Hægt að lækka kostnað á auðveld­an hátt

Gunn­ar vill reynd­ar berj­ast fyr­ir því að heil­brigðisþjón­usta verði gjald­frjáls, en þangað til það verður raun­in seg­ir hann nóg að setja um tvo millj­arða auka­lega inn í kerfið, til að hægt sé að lækka greiðsluþakið úr 70 þúsund krón­um á ári í 40 til 50 þúsund krón­ur.

„Ég get líka svarað því hvert á að sækja þessa pen­inga. Það er hægt að fresta lækk­un virðis­auka­skatts úr 24 pró­sent í 22,5 pró­sent. Ég held að flest­ir væru sátt­ir við að greiða lægri heil­brigðisþjón­ustu á móti. Það er miklu meiri jöfn­un­araðgerð.“

Að sögn Gunn­ars ger­ist það sjald­an að veik­ur ein­stak­ling­ur fái bót meina sinna einn, tveir og þrír, án þess að leita til lækn­is. Sér­stak­lega ef um fjölþætt vanda­mál er að ræða, líkt og al­gengt er í dag.

Gunn­ar er þó bjart­sýnn á að kerfið verði end­ur­skoðað fyrr en síðar. „Heil­brigðisráðherra hef­ur sagt að hann vilji sjá hvernig kerfið þró­ast áður en hann fer að leggja til breyt­ing­ar. Ég ætla að gefa hon­um það að hann leyfi kerf­inu að þró­ast í tvö ár, áður en hann fer af stað með breyt­ing­ar. Spor­in hræða hins veg­ar í þess­um efn­um. Þetta var líka sagt með lyfja­greiðslu­kerfið. Það átti að end­ur­skoða. Það er hins veg­ar enn ekki búið að hrinda þeim breyt­ing­um í fram­kvæmd sem þar áttu að fylgja.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert