Lava – eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöð Íslands var opnuð á Hvolsvelli fyrir nokkrum dögum. Í miðstöðinni er sýning sem er í raun ferðalag um jarðsögu tuttugu milljón ára, tímann sem Ísland hefur verið í mótun. Meðal annars geta gestir upplifað jarðskjálfta, öskufall, hraunflæði og eldgos síðustu aldarinnar.
Það var í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli árið 2010 sem hugmyndir um eldfjallasýningu komu fram. Aðsókn að LAVA fer vel af stað og áhugi gesta er mikill.