Fjórir til fimm óeinkennisklæddir lögreglumenn sinntu fíkniefnaeftirliti á tónlistarhátíðinni Secret Solstice um helgina og höfðu sér til aðstoðar tvo fíkniefnaleitarhunda. Alls komu upp 34 mál á hátíðinni sem tengja má við fíkniefnaeftirlitið, þar af tvær stórar haldlagningar.
Stærstu fíkniefnamálin á hátíðinni voru tvær haldlagningar á fíkniefnum, sem annars vegar var hægt að mæla í tugum gramma og hins vegar í hundruðum gramma, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Sveinn Rúnar Einarsson, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, sagði í samtali við mbl.is að samstarf við lögreglu hafi verið mjög gott.
Viðbúnaður slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu á hátíðinni var meiri en í fyrra. Tveir sjúkrabílar voru staðsettir þar allan tímann, auk þess sem svokallaðar stjórnendavaktir voru þar með tveimur slökkviliðsmönnum. Þeir héldu til í sérstöku skipulags- og eftirlitstjaldi ásamt lögreglumönnum.