Aðstandendur tónlistarhátíðarinnar Secert Solstice, sem fram fór í Laugardalnum um helgina, hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna umræðu um frágang eftir hátíðina.
„Þeim [aðstandendum hátíðarinnar] þykir miður að ákveðnir viðburðir hafi rekist saman og að þau börn sem hafi verið að sækja íþróttanámskeið í Þróttaraheimilinu hafi orðið vitni að því rusli sem safnast hafði saman vegna hátíðarinnar og allra þeirra viðburða sem farið hafa fram í Laugardalnum seinustu daga. Við tökum öllum ábendingum fagnandi og höfum þegar hafist handa við að breyta þeim verkferlum sem við eiga til þess að taka betur á þessu máli á næsta ári,“ segir í tilkynningunni.
Þar kemur einnig fram að margt hafi verið um að vera í Laugardalnum um helgina, ekki bara vegna Secret Solstice, heldur einnig hafi þar farið fram þrír landsleikir, bæði fyrir og meðan á hátíðinni stóð. „Það bættist því verulega við mannfjöldann sem átti leið í gegnum Laugardalinn seinustu daga. Aðstandendur Secret Solstice vilja vekja athygli á því að hátíðin tók á sig að hreinsa til eftir alla þessa viðburði sem fóru fram í Laugardalnum á sama tíma með glöðu geði,“ segir í tilkynningunni.
„Samskipti hátíðarinnar við bæði borgaryfirvöld og lögregluna gengu vonum framar og aðstandendur Secret Solstice eru stoltir að segja frá því, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni, að ekki eitt einasta ofbeldismál kom upp á hátíðinni,“ segir þar enn fremur.
Aðstandendur segja hátíðina hafa gengið framar þeirra björtustu vonum en þetta er í fjórða sinn sem hátíðin fer fram. „Vilja skipuleggjendur hennar fullyrða að þetta hafi verið þeirra besta hátíð til þessa. Í ár var hátíðarsvæðið stækkað um 5.000 fermetra og stærsta svið hátíðarinnar var þrefaldað. Hátt í 20.000 manns mættu í Laugardalinn til þess að fylgjast með 136 tónlistaratriðum koma fram og var allt skipulag til fyrirmyndar,“ segir einnig í tilkynningunni.