Ráðstefna um norðurslóðir í Washington

Ronald Reagan-byggingin í Washington þar sem ráðstefnan fer fram.
Ronald Reagan-byggingin í Washington þar sem ráðstefnan fer fram. Ljósmynd/Aðsend

Ráðstefna um stöðu Bandaríkjanna og Rússlands á norðurslóðum hófst í Ronald Reagan-byggingunni í Washington í morgun.

Arctic Circle-Hringborð norðurslóða og Wilson-stofnunin standa á bak við ráðstefnuna.

Rúmlega 600 þátttakendur sækja ráðstefnuna, þar á meðal bandarískir og rússneskir þingmenn, embættismenn, vísindamenn, forystumenn í atvinnulífinu og umhverfissinnar, að því er segir í tilkynningu.

Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Arctic Circle og fyrrverandi forseti Íslands, setti ráðstefnuna í hátíðarsal Ronald Reagan –byggingarinnar. Að því loknu fluttu ræður þær Jane Harman, forseti Wilson-stofnunarinnar og Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður og formaður orkunefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings.

Ronald Reagan-byggingin.
Ronald Reagan-byggingin. Ljósmynd/Aðsend

Margir ræðumenn í dag

Síðar í dag verður fjallað um vísindasamvinnu, fjárfestingar á norðurslóðum, siglingar, viðskipti og ferðaþjónustu, reynsluna af samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands á norðurslóðum, strandgæslu, öryggismál og mikilvægi Barentssundsins.

Meðal ræðumanna verða rússneski öldungadeildarþingmaðurinn Igor Chernyshenko, Paul Zukunft flotaforingi, yfirmaður bandarísku strandgæslunnar, bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Dan Sullivan, David Bolton sendiherra Bandaríkjanna í málefnum norðurslóða, rússneski þingmaðurinn Georgy Karlov og Mark Brzezinski sem stjórnaði málefnum norðurslóða í Hvíta húsinu í forsetatíð Baracks Obama.

Þá munu Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips og Ásgrímur L. Ásgrímsson frá Landhelgisgæslu Íslands einnig tala á ráðstefnunni.

Málstofur um samvinnu og öryggismál

Á morgun verða málstofur um efnahagslega samvinnu á norðurslóðum og öryggismál. Þær verða haldnar í höfuðstöðvum Wilson-stofnunarinnar en hún er meðal helstu þjóðmálastofnana í Washington, stofnsett í minningu Woodrow Wilson, forseta Bandaríkjanna, að því er segir í tilkynningunni.

Ráðstefnan í Washington er sú fimmta af sérhæfðum ráðstefnum sem Arctic Circle-Hringborð norðurslóða heldur í öðrum löndum. Hinar fyrri voru í Alaska, í Singapúr, á Grænlandi og í Kanada.

Hin árlegu þing Arctic Circle eru haldin í október á Íslandi og sækja þau um 2000 þátttakendur frá um 50 löndum. Næsta þing verður haldið 13. til 15. október í Hörpu.

Fylgjast má með ráðstefnunni í Washington hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka