Veikindi Stefáns Karls langt gengin

Stefán Karl og Steinunn Ólína
Stefán Karl og Steinunn Ólína mbl.is/Golli

Þrátt fyrir að líkurnar og tölfræðin séu okkur ekki í hag og kerti Stefáns brenni hratt þá ætlum við ekki að dvelja við það og verða örkumla af hræðslu. Við vitum að tíminn er dýrmætur sem aldrei fyrr og höfum einsett okkur að njóta hans eins vel og okkur gefst kostur á. Dauðinn er nauðaómerkilegur – lífið er hinsvegar ekkert minna en stórkostlegt!

Þetta segir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir á Facebook-síðu sinni þar sem hún greinir frá því hver staðan er varðandi veikindi Stefáns Karls Stefánssonar að beiðni hans þar sem margir hafa að hennar sögn spurt um veikindin. Þar segir að Stefán sé með gallgangakrabbamein sem sé sjaldgæfur og lítt rannsakaður sjúkdómur. Hann sé nú kominn heim eftir sjúkrahúsvist þar sem fjarlægð hafi verið þrjú meinvörp úr lifur. Sýking hafi lengt vistina.

„Sjúkdómurinn er nú langt genginn, á 4. stigi og því eru lífslíkur hans því miður verulega skertar. Lækning er ekki í sjónmáli þegar sjúkdómurinn er svo langt genginn, tilraunir eru gerðar með lyf og lífslengjandi hefðbundnar og óhefðbundnar meðferðir víða um heim en svörin eru ekki að berast sem skyldi enn sem komið er. Hefðbundnar krabbameinslyfjameðferðir skila heldur ekki árangri sem heitið getur þegar hér er komið sögu,“ segir hún og bætir við:

„Meinvörp þessa sjúkdóms er stundum hægt að fjarlægja með skurðaðgerðum eins og í aðgerðinni sem Stefán fór í gegnum fyrir hálfum mánuði en óvíst er að hann þyldi fleiri slíkar þegar sjúkdómurinn lætur aftur á sér kræla eða að það verði hreinlega gerlegt vegna staðsetningar meinvarpa. Um þetta er lítið hægt að spá á þessari stundu. Við vonum það besta.“ Óbærilegt hafi verið að segja börnunum þeirra frá stöðunni.

Erfiður fundur með börnunum fjórum

„Það var óbærilegt að segja börnunum okkar frá því að pabbi þeirra yrði ekki gamall maður og að tíminn sem við ættum saman væri af skornum skammti. Að taka þá von frá þeim að pabba muni nokkurn tíma batna. Traust barna sinna eignast maður ekki nema að maður segi þeim satt, líka þegar það virðist ógerlegt. Það hefur verið þeim léttir að vita að ekki er verið að leyna þau neinu. Ef einhver heldur að börn séu ekki þess megnug að eiga innihaldsríkar samræður um dauðann, lífið og tilveruna þá fer sá hinn sami á mis við margt.“

Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur hafi leitt þennan erfiða fund hennar og barnanna fjögurra og gert það fallega og af gríðarlegri fagmennsku. Steinunn Ólína segist ekki hafa getað það án hans aðstoðar. „Fjölskylda og vinir okkar eru allir slegnir yfir stöðu mála og hver og einn tekur á sinn hátt þessum þungbæru staðreyndum sem blasa við okkur. Það er furðulegt að þótt maður sé fastur í senu í miðri stórslysamynd – þá glennir sólin sig núna bara eins og ekkert hafi í skorist – hvernig má það vera? Lífið er makalaust.“

Þakkar hún læknum Stefáns, hjúkrunarfræðingum og öllu starfsfólki 13-G á Landspítalanum fyrir alúðina undanfarna daga. Um sé að ræða afburðafólk. „Ég vil líka þakka óvænta vininum sem ég eignaðist á bekk fyrir utan spítalann fyrir trúnaðarsamtalið, gaurnum á bónbílnum sem fór í rallý með Júliu og Steina á göngum Landspítalans og næturverðinum sem brosti til mín þegar ég fór heim á næturnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert