Hópmálsókn gegn Björgólfi vísað aftur frá

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/RAX

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í morgun frá hópmálsókn gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni. Dómurinn taldi stöðu hluthafanna of ólíka til þess að hægt væri að höfða hópmál en málsókninni hefur áður verið vísað frá af sömu ástæðu.

Stefn­end­ur telja að Björgólf­ur hafi með sak­næm­um hætti komið í veg fyr­ir að hlut­haf­ar Lands­bank­ans fengju upp­lýs­ing­ar um um­fangs­mikl­ar lán­veit­ing­ar og einnig að hann hafi brotið gegn regl­um um yf­ir­töku. Hópmálsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi.

Áður höfðu dómstólar vísað hópmálsókninni frá á þeirri forsendu að hluthafahópurinn væri ekki nægilega einsleitur, og brugðust ósáttu hluthafarnir við með því að höfða þrjú hópmál á hendur Björgólfi þar sem hluthöfunum var skipt upp í hópa eftir því hversu lengi þeir höfðu átt bréf í Landsbankanum.

Jóhannes Bjarni Björnsson, lögmaður málsóknarfélaganna, segir að úrskurðinum verði skotið til Hæstaréttar. Félögin Vogun og Venus drógu sig út úr hópmálsókninni og höfðuðu sjálf mál gegn Björgólfi. Málin munu fara fyrir dóm en Björgólfur hefur frest til október að skila greinargerð í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert