Ítrekað kallað eftir aðgerðum ráðuneytis

Mennta- og menningamálaráðuneytið.
Mennta- og menningamálaráðuneytið. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Samskiptamiðstöð heyrnalausra og heyrnarskertra hefur kallað eftir því í mörg ár að ráðuneyti setji reglugerð um úthlutun fjár vegna túlkaþjónustu að sögn forstöðumanns en miðstöðin hefur takmarkað fé til úthlutunar á ári hverju.  

Áslaug Ýr Hjaltadóttir greindi frá því á Facebook-síðu sinni í dag að hún hafi stefnt íslenskum stjórnvöldum sem og Samskiptamiðstöð heyrnarlausara og heyrnaskertra þar sem hún fái ekki endurgjaldslausa túlkaþjónustu í sumarbúðunum fyrir daufblind ungmenni frá Norðurlöndunum sem hún hyggst sækja.

Samskiptamiðstöð fær úthlutað á hverju ári um 30 milljónum til þess að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu í daglegu lífi. Þeirri fjárhæð er deilt til samskiptamiðstöðvarinnar umfram lagalegan rétt að sögn Valgerðar og byggir ekki á neinni reglugerð eða lögum. Miðstöðinni ber síðan að úthluta fénu til þeirra um það bil 200 einstaklinga sem rétt eiga á túlkaþjónustu, og ber að haga úthlutun með jöfnum hætti milli ársfjórðunga. Um er að ræða fjármagn sem dugar fyrir um það bil 3.000 tímum í túlkaþjónustu að sögn Valgerðar Stefánsdóttur, forstöðumanns Samskiptamiðstöðvarinnar.

 „Við eigum að skipta tímunum niður með það fyrir augum að þeir endist fyrir alla. Og við höfum ítrekað í mörg ár kallað eftir reglum til þess að deila út eftir,“ segir Valgerður í samtali við mbl.is. „Við höfum engar reglur til að byggja á forgangsröðun þannig að það er mjög vandasamt fyrir okkur að deila þessum peningum út þannig að við gætum jafnræðis,“ bætir hún við.

Þá sé samskiptamiðstöðinni heimilt að greiða ferðakostnað túlks utan höfuðborgarsvæðisins en samkvæmt túlkun ráðuneytisins á það við um ferðir innanlands en ekki út fyrir landssteinana.

„Í rauninni er þessu mjög takmarkaða fé ætlað til þess að túlka innanlands. Og ef að við eigum að gæta jafnræðis þá erum við að tala um svona rúmlega 1 tíma á mánuði fyrir hvern einstakling. Þarna er um að ræða um  150 tíma og í útlöndum, sem að þýðir flug og dagpeningar og það er fyrir fjóra túlka,“ segir Valgerður  um kostnað vegna túlkaþjónustu í sumarbúðum erlendis.

Nákvæmar reglur í nágrannalöndum

„Þannig að ef að við ætlum að fylgja tilmælum ráðuneytisins, þá eigum við ekki fyrir þessu og það er sú staða sem að við stöndum frammi fyrir,“ segir Valgerður.  Þá standi miðstöðin einnig frammi fyrir því að erfitt sé að rökstyðja hvers vegna enda hafi hún engar reglur til að styðjast við. En á hinn bóginn geri ráðuneytið kröfu um að úthlutunum sé haldið innan rammans.

 „Í öllum löndum í kringum okkur eru til lög og nákvæmar reglur um þessa túlkaþjónustu,“ segir Valgerður. „Það er litið svo á að það sé eðlilegur þáttur í því að vera borgari í samfélagi , til þess að geta nýtt réttindi sín og rækt skyldur sínar. Við höfum kallað eftir þessu í mörg ár og bent á vanda okkar, sem við stöndum frammi fyrir á hverjum einasta degi, varðandi úthlutun þessa fjár,“ segir Valgerður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert