Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið farsímagögn sem kynnu að gefa vísbendingar um hvar Rimantas Rimkus er að finna. Ekkert hefur spurst til Rimantas, sem er 38 ára Lithái, frá því um síðustu mánaðamót.
„Við erum litlu nær en í gær. Við erum að skoða símagögnin og reyna að ákveða næstu skref í dag,“ segir Heimir Ríkharðsson lögreglufulltrúi.
Leitað hefur verið í nágrenni bíls hans sem fannst við Stekkjarbakka en Rimkus hafði búið í bílnum í einhverjar vikur. Að sögn Heimis á Rimantas aðstandendur hér á landi; tvö börn og barnsmóður en hann hefur búið á Íslandi í um það bil tíu ár.
Lögreglan telur nánast útilokað að hann hafi farið úr landi. „Við erum búnir að kanna það og höfum engar upplýsingar um að það hafi gerst.“
Rimantas er 187 sm á hæð, 74 kg og með dökkt stutt hár. Þeir sem geta veitt upplýsingar um ferðir Rimantas eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 112. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í einkaskilaboðum á Fésbókarsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.