Tólf milljónir króna hafa safnast á fyrstu þremur dögunum í landssöfnuninni „Vinátta í verki“ sem Hjálparstofnun kirkjunnar, í samvinnu við Kalak og Hrókinn, efndu til eftir hamfarirnar á Grænlandi um síðustu helgi. Fjórir létust, eitt þorp er í rústum, og tvö önnur voru rýmd vegna hættuástands sem enn stendur. 200 eru nú án heimilis.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá landssöfnuninni. „Viðtökur við söfnuninni hafa verið frábærar frá fyrstu stundu, þótt engu sé kostað í auglýsingar, kynningarmál eða nokkuð.“ Stærsta framlagið til þessa hafi komið frá Reykjavíkurborg eða fjórar milljónir. Vonast er til að önnur sveitarfélög taki einnig þátt í að styðja Grænlendinga.
Alþýðusamband Íslands hafi lagt 500 þúsund krónur í söfnunina og hvatt önnur verkalýðsfélög til þess að taka einnig þátt. Landssöfnunin biðlar einnig til íslenskra fyrirtækja að taka þátt í stuðningnum við Grænlendinga. Allt eftir efnum og aðstæðum. Fyrirtæki líkt og Air Iceland Connect séu meðal þeirra fjölmörgu sem lagt hafi sitt að mörkum.
„Landssöfnunin hefur vakið gríðarlega athygli á Grænlandi, og ljóst að nágrannar okkar eru djúpt snortnir yfir þeim stuðningi og kærleika sem streymir frá nágrönnum þeirra og vinum á Íslandi og Færeyjum. Grænlenskir fjölmiðlar fylgjast með af áhuga og á grænlenskum Facebook-síðum rignir fallegum kveðjum og þakkarorðum til Íslendinga.“