„Það var nógu fyndið um daginn þegar ég fékk bæði sms-skilaboð og tölvupóst frá brúðkaupsgestum, en þegar ég fékk tölvupóst frá sýslumanni þá fékk ég kast,“ segir Sigrún Helga Lund, sem hefur síðstu vikur fengið tölvupósta og sms-skilaboð í tengslum við brúðkaup sem fer fram á Vestfjörðum á laugardag. Sigrún er í þessum póstum ávörpuð sem brúður, án þess að kannast við að vera að fara að gifta sig.
Síðasti póstur barst frá Sýslumanninum á Vestfjörðum þar sem hann sagði allt klappað og klárt fyrir hjónavígsluna á laugardag.
Svo virðist sem hún og brúðurin séu með ansi líkt netfang og því einfalt fyrir brúðkaupsgesti að ruglast. „Ég er með netfangið sigrunhelga@gmail.com og fannst svo frábært að fá svona einfalt netfang á sínum tíma. Það hefur þó heldur betur komið mér í koll. Ég er alltaf að fá tölvupósta sem eiga ekki að koma til mín. Ég hef fengið ráðningarsamninga, skilnaðarpappíra og ég veit ekki hvað,“ segir Sigrún hlæjandi. Hún er því öllu vön þegar kemur að tölvupóstum.
„Þegar fólk fór svo að melda sig í brúðkaupið mitt þá svaraði ég eins og venjulega, að pósturinn hefði líklega ekki átt að fara til mín. En þá fékk ég líka sms-skilaboð í símann minn, frá öðru fólki, sem var líka að melda sig í brúðkaupið.“
Sigrún deildi þessum skemmtilega misskilningi með vinum sínum á Facebook og hafa tölvupóstarnir og skilaboðin vakið mikla kátínu á síðunni hennar. Ísland er hins vegar lítið land og auðvitað kom það í ljós að ein vinkona hennar á Facebook er vinkona brúðarinnar. „Hún er á leiðinni í þetta brúðkaup og lét brúðina vita. Þannig ég er búin að vera í sambandi við hana og bauðst til áframsenda á hana ef ég fengi fleiri pósta eða skilaboð.“
Pósturinn frá sýslumanninum hefur því ratað á réttan stað og allt væntanlega tilbúið fyrir hjónavígsluna. Sigrún verður reyndar upptekin við að hjóla hringinn í kringum landið næsta sólarhringinn, sem þátttakandi í WOW-cyclothon, og því eins gott að mikilvægir tölvupóstar varðandi brúðkaupið berist ekki á þeim tíma.
Vinir Sigrúnar eru margir hverjir ansi uppátækjasamir og fyrst þegar hún fékk póst um brúðkaupið þá hvarflaði að henni að nú verið verið að fíflast í henni. Ekki í fyrsta skipti. „Maður veit aldrei hverju þeir taka upp á. Ég er allavega mjög spennt að sjá hvað gerist á laugardaginn. Mér sýnist þetta vera sveitabrúðkaup á Vestfjörðum þannig það verður örugglega rosa gaman þarna,“ segir Sigrún, en henni hefur ekki verið boðið í brúðkaupið þrátt fyrir þessi óvæntu kynni af brúðhjónunum.