Að gera vegan-fæði að vegan-æði

Ljósmynd/Ómar Sverrisson

Búið er að safna rúmlega milljón krónum fyrir opnun veitingastaðarins Veganæs, vegan matsölustað á rokkbarnum Gauki á Stöng (Gauknum). Linnea Hellström, Krummi Björgvinsson og Örn Tönsberg forsvarsmenn staðarins segja hann muna bjóða uppá „grimmdarlausan þægindamat“. Fjármögnun staðarins hefur lokamarkmið uppá 1,8 milljónir króna. Ef það næst ekki fyrir 16. júlí mun verkefnið ekki fjármagnast. 

Linnea er vegan-kokkur frá Svíþjóð, Örn er vegan lista- og tónlistamaður og Krummi er vegan-tónlistarmaður. Á fjármögnunarsíðu þeirra segja þau markmið sitt vera að ryðja brautina fyrir nýja kynslóð vegan-fólks á Íslandi, ásamt því að bjóða upp á græna kosti fyrir hinn sívaxandi straum af ferðamönnum sem heimsækja landið. Þau hvetja þó alla til að koma á staðinn enda séu þau fyrst og fremst að elda fyrir hvern þann sem vilji góðan mat.

Nafn veitingastaðarins, Veganæs, kemur frá enskri þýðingu þess að veganvæða (veganize). Þetta útskýra þau á fjármögnunarsíðu sinni: „Að veganvæða er að taka fyrir mat sem er ekki vegan og gera hann að vegan-mat. Veganæs stendur fyrir næsta skref á sömu nótum, að gera vegan-fæði að vegan-æði. Samúðarfullt líferni án málamiðlana.“

Nafn veitingastaðarins, Veganæs, útskýra þau á fjármögnunarsíðu sinni. „Að veganvæða …
Nafn veitingastaðarins, Veganæs, útskýra þau á fjármögnunarsíðu sinni. „Að veganvæða er að taka fyrir mat sem er ekki vegan og gera hann að vegan-mat. Veganæs stendur fyrir næsta skref á sömu nótum, að gera vegan-fæði að vegan-æði. Mynd/Veganæs


„Látum þetta nást með öllum ráðum“

Til að fjármagna staðinn nota þau hópfjármögnunarsíðuna Karolina fund. Þau hafa núþegar safnað rúmlega 8.500 evrur eða um milljón íslenskra króna. Lokamarkmið þeirra er 15.000 evrur, eða um 1,8 milljónir króna. Verkefnið mun aðeins fjármagnast ef lokamarkmiðið næst fyrir miðnætti 16. júlí. Krummi er bjartsýnn. „Við látum þetta nást með öllum ráðum,“ segir Krummi.

Aðspurður segir hann velgengi fjármögnunarinnar ekki koma á óvart. „Ég held að það hafi margir verið að biðja um þetta, að það verði til vegan staður sem er ekki endilega að selja hollan mat,“ segir hann. „Það er mikill stuðningur því fólk vill fá þetta í bæinn,“ segir Krummi.

Matsölustaðurinn á að opna á Gauki á stöng en eigendur staðarins, Sólveig Johnsen og Starri Hauks­son eru bæði vegan. Staðurinn mun hafa sæti fyrir 20 manns og einnig verður hægt að taka mat með sér. Krummi segir Gaukinn vera mjög góða staðsetningu fyrir Veganæs. „Við erum að reyna að blanda saman tónlist og mat, segir Krummi. „Eigendur Gauksins hafa líka unnið hart að því að búa til fordómalaust umhverfi. Okkur fannst þetta því fullkomið að gera þetta þar.“

Skortur á safaríkum og sósukenndum vegan-mat

Á staðnum verður boðið uppá „þægindamat sem hentar bæði rokkbar og Veganæs-rokkurum“. Aðaláhersla matreiðslunnar á staðnum er að matreiða og bera fram vegan-fæði sem stendur jöfnum fæti á við „venjulegan” mat. Þannig vilja þau ögra þeim sem þykir vegan-matur ekki góður með „huggandi þægindamat“. Þau segja sig einnig vera styrkja úrvalið af vegan-mat með því að hafa Veganæs ekki heilsufæði. Nóg sé til af vegan-mat með hollustuna í fyrirrúmi en skortur sé á „safaríkum og sósukenndum vegan-mati“.

Linnea Hellström hefur unnið á Íslandi sem vegan-kokkur í fjögur …
Linnea Hellström hefur unnið á Íslandi sem vegan-kokkur í fjögur ár. Hún mun matreiða á staðnum. Samkvæmt hópnum verður maturinn „safaríkur og sósukenndur“ Mynd/Veganæs


Bjóða til veislu

Veganæs hefur nú boðið til veislu 28. júní á Gauknum, þar sem boðið verður uppá lifandi tónlist og sýnishorn af matseðli. „Til að smakka og fá smá fílínginn fyrir þessu,“ segir Krummi. Það verður einnig hægt að ræða við talsmenn íslensku vegan samfélaganna „Aktívegan“ og „Vegan samtakanna“ og þannig fræðast um veganisma. „Þetta byrjar klukkan átta, frítt inn og allir velkomnir, um að gera að koma og tjilla með okkur!“ segir Krummi.

Hægt er að sjá kynningarmyndband fjármögnuninnar hér:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert