„Ég er drusla“ að veruleika

Er bókinni ætlað að fanga orku Druslugöngunnar, sem hefur verið …
Er bókinni ætlað að fanga orku Druslugöngunnar, sem hefur verið gengin árlega hér á landi frá árinu 2011. ljósmynd/Rut Sigurðardóttir

„Þessi bók er gerð til að hreyfa og til að heila,“ segir Hjalti Vigfússon, einn skipuleggjenda Druslugöngunnar, um bókina Ég er drusla sem kemur í verslanir í næstu viku. Er bókinni ætlað að fanga orku Druslugöngunnar, sem hefur verið gengin árlega hér á landi frá árinu 2011.

Um er að ræða uppskeru vinnu sem hófst fyrst fyrir um þremur árum. Þá var ætlunin að gefa út ljósmyndabók, en hætt var við útgáfuna eftir að hópnum barst ábending um að aðili ótengdur Druslugöngunni sem kom að útgáfunni væri kynferðisbrotamaður. Hann hefur aldrei hlotið dóm, en að sögn skipuleggjenda göngunnar gerðu ásakanirnar það að verkum að Druslugangan gat ekki staðið á bakvið bókina. Markmið göngunnar er að uppræta kynferðisofbeldi og standa með þolendum, og hefði útgáfan gengið þvert á það markmið.

Allir gáfu vinnu sína

Hjalti segir hugmyndina með bókinni hafa breyst töluvert á síðustu þremur árum, en skipuleggjendur göngunnar séu afar ánægðir með útkomuna. „Markmiðið okkar var að fanga í bók orkuna og stemninguna sem maður finnur í göngunni, og það sem gangan gefur fólki,“ segir hann.

Hjalti Vigfússon, einn skipuleggjenda Druslugöngunnar.
Hjalti Vigfússon, einn skipuleggjenda Druslugöngunnar.

Ákveðið var að fá fjölbreyttan hóp yfir fjörtíu listamanna til að skapa efni tengt göngunni og binda það saman í bók. Allir sem komu að bókinni gáfu vinnu sína, og var listamönnunum gefnar frjálsar hendur um útfærslu. „Við vildum ekki stjórna því sem gerist í bókinni því Druslugangan býr til öruggt rými fyrir fólk til að tjá sig,“ segir Hjalti.

Fjölbreyttur hópur listamanna skapaði fyrir bókina

Hópurinn sem kemur að bókinni er mjög fjölbreyttur og er aldursbil þeirra sem þar tjá sig frá 15 ára upp í sextugt. Má þar finna verk eftir rithöfunda, myndlistarmenn og danshöfunda svo eitthvað sé nefnt. Útkomuna segir Hjalti vera magnað verk. „Þetta eru svo margar sögur, upplifanir og hugsanir á samt svo litlu plássi. Þegar maður les hana er maður alltaf að uppgötva eitthvað nýtt,“ segir hann.

Auk listaverkanna má einnig finna ljósmyndir, sögur þolenda og ræður úr fyrri Druslugöngum. Rut Sigurðardóttir ljósmyndari tók myndir af fólki sem hefur fengið sér húðflúr með merki Druslugöngunnar og einnig af rýmum sem veita þolendum öryggi.

Verkið Skömm eftir Ingu Huld Hákonardóttur er eitt þeirra verka …
Verkið Skömm eftir Ingu Huld Hákonardóttur er eitt þeirra verka sem prýða blaðsíður bókarinnar.

Valdeflandi sögur til að hjálpa öðrum

Sögur þolendanna sem sagðar eru í bókinni snúa að vendipunktum í þeirra bataferli, og segir Hjalti tilganginn hafa verið að valdefla. „Það sem við sjáum í viðtölum eru oft ofbeldissögur og lýsingar á því ofbeldi sem átti sér stað en við vildum frekar einblína á það jákvæða; hvenær eitthvað breyttist í bataferlinu hjá þolendum,“ segir Hjalti.

Segir hann sögurnar geta hjálpað öðrum þolendum, enda sé þar oft sagt frá því sem hefur virkað til að komast í gegnum það erfiða ferli sem tekur við eftir að fólk hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi.

Baráttunni tapað ef hætt verður að tala um kynferðisofbeldi

Bókinni er auk þess ætlað að vera eins konar framhald af Druslugöngunni, enda er hún ekki bara einn dagur á ári að sögn Hjalta. „Bókinni er ætlað að snerta við fólki svo það haldi áfram að hugsa og tala um þetta svo það verði ekki stöðnun. Eins og við segjum í formála bókarinnar þá er stöðnun dauði,“ segir Hjalti og útskýrir að um leið og fólk hættir að tala opinskátt um kynferðisofbeldi og berjast gegn því verði baráttunni tapað.

Ræðurnar sem finna má í bókinni eru frá þeim Cynthiu Triliani, sem fjallaði um ofbeldi og upplifanir kvenna af erlendum uppruna, Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur, sem fjallaði um kynferðisofbeldi gegn fötluðum konum og Júlíu Birgisdóttur sem fjallaði um stafrænt kynferðisofbeldi. Ræðurnar vöktu allar mikla athygli þegar þær voru fluttar í göngum síðustu ára, og segir Hjalti að þar sem þær eigi allar ennþá svo mikið erindi hafi verið ákveðið að þær fengju að lifa áfram í bókinni.

Cynthia Triliani hélt ræðu í Druslugöngunni fyrir tveimur árum um …
Cynthia Triliani hélt ræðu í Druslugöngunni fyrir tveimur árum um ofbeldi og upplifanir kvenna af erlendum uppruna.

Hver einasti millímeter gerður af hugsjón

Hjalti segir hvern einasta millímeter í bókinni vera gerðan af hugsjón. Til að mynda sé allt letur bókarinnar hannað af konum, en þær hafa oft á tíðum átt undir högg að sækja í hönnunarheiminum. Þá hafi verið gætt að því að sem fjölbreyttastur hópur kæmi að bókinni, en í hópnum er að finna Íslendinga af erlendum uppruna, fatlaða listamenn og fólk sem skilgreinir sig utan kynjakerfisins svo eitthvað sé nefnt. „Við verðum líka að einblína á þessar sögur því upplifanirnar geta verið svo ólíkar. Það er mjög mikilvægt að þessar sögur séu sagðar líka,“ segir Hjalti.

Ákveðið hafi verið að reyna að halda verði bókarinnar í lágmarki, svo sem flestir gætu eignast hana. Allir hafi gefið vinnu sína, og valið hafi verið efni í bókina sem var eins ódýrt og hægt var. „Við vildum að sem flestir gætu átt þessa bók, lesið hana og fengið eitthvað út úr því,“ segir Hjalti.

Rut Sigurðardóttir ljósmyndari tók myndir af fólki sem hefur fengið …
Rut Sigurðardóttir ljósmyndari tók myndir af fólki sem hefur fengið sér húðflúr með merki Druslugöngunnar. ljósmynd/Rut Sigurðardóttir

Einblína á stafrænt kynferðisofbeldi þetta árið

Bókin kemur út næstkomandi þriðjudag, 27. Júní og verður útgáfunni fagnað á Gamla Nýlistasafninu að Skúlagötu 28 klukkan 18.

Þá verður Druslugangan gengin í sjöunda sinn þann 29. júlí næstkomandi frá Hallgrímskirkju. Að sögn Hjalta verður sjónum beint að stafrænu kynferðisofbeldi í þetta skiptið, enda hefur umræða um það verið mikil í samfélaginu að undanförnu.  „Við sjáum að umræðan er á sama stað og umræðan um kynferðisofbeldi var þegar við byrjuðum að ganga Druslugöngu. Skömminni er ausað yfir þolendur í stað þess að einblína á gerendur,“ segir Hjalti. „Við vonumst til þess að geta verið með ákveðna vitundarvakningu um þetta og stefnum auðvitað að stærstu göngunni til þessa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert