Verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, óskaði í dag, í Héraðsdómi Reykjavíkur, eftir fresti til að skila greinargerð í umboðssvika- og innherjasvikamáli sem Hreiðar er ákærður í og tengist einkahlutafélaginu Hreiðari Má Sigurðssyni ehf. Veittur var frestur til 11. september næstkomandi.
Samkvæmt ákæru málsins fékk félagið 574 milljóna króna lán frá Kaupþingi til kaupa á 812 þúsund hlutum í bankanum í ágúst 2008. 246 milljónir fóru til kaupanna en um 324 milljónir stóðu eftir til frjálsrar ráðstöfunar, en Hreiðar var eigandi félagsins og stýrði því.
Hæstiréttur hafnaði nýlega kröfu Hreiðars Más um að fá afhent gögn sem saksóknari aflaði við rannsókn málsins. Um er að ræða gögn sem ekki hafa verið lögð fram af ákæruvaldinu. Má leiða að því líkur að verjandi Hreiðars, Hörður Felix Harðarson, hafi viljað fá það á hreint hvort gögnin fengjust afhent áður en hann lyki við greinargerð í málinu. Hún skal hins vegar vera tilbúin eigi síðar en 11. september, þegar hún verður lögð fram fyrir dómi.