„Ólögmæt og óréttlát staða“

Áslaug Ýr Hjartardóttir.
Áslaug Ýr Hjartardóttir.

„Það er auðvitað grafalvarleg staða að framkvæmdavaldið ákveði að virða niðurstöðu dómstóla að vettugi,“ segir Páll Rúnar Mikael Kristjánsson, lögmaður Áslaugar Ýrar Hjartardóttur sem hefur stefnt íslenska ríkinu vegna mismununar.

Áslaug Ýr er með samþætta sjón- og heyrnar­skerðingu og hyggst fara í sum­ar­búðir fyr­ir dauf­blind ung­menni frá Norður­lönd­un­um í júlí, en beiðni hennar um túlkaþjónustu var synjað. Áslaug þarf túlka með í ferðina til að geta tekið þátt, en þarf að greiða laun þeirra sjálf ólíkt öðrum þátttakendum frá Norðurlöndunum.

Syst­ir Áslaug­ar, Snæ­dís Rán Hjart­ar­dótt­ir, vann sam­bæri­legt mál sem hún höfðaði árið 2015 gegn Sam­skiptamiðstöð heyrn­ar­lausra og heyrna­skertra vegna þess að miðstöðin synjaði Snæ­dísi um end­ur­gjalds­lausa túlkaþjón­ustu. Niðurstaðan virðist hins vegar ekki hafa breytt neinu til frambúðar fyrir fólk í sömu stöðu.

Páll Rúnar M. Kristjánsson er lögmaður Áslaugar.
Páll Rúnar M. Kristjánsson er lögmaður Áslaugar. Ljósmynd/Málflutningsstofa Reykjavíkur

Ætti að skila sömu stöðu

„Í stuttu máli er það þannig að íslenska ríkið fer þá leið að una dómi um mannréttindabrot en gerir á sama tíma engar efnislegar breytingar á háttsemi sinni. Það er látið sem ekkert sé,“ segir Páll og bætir við að grátlegt sé að hunsuð sé tilfærsla og augljóst fordæmisgildi á milli mála Áslaugar og Snædísar. „Hér er allt eins. Þær eru systur, með fullkomlega sama erfðaefni, í sömu stöðu, með sama sjúkdóm og ætla sér sambærilega hluti í lífinu. Þjónustan sem þær eiga rétt á ætti því að skila þeim báðum sömu stöðu. Hér er ekkert til staðar sem réttlætir að önnur þeirra búi við annan og lakari rétt og búið er að dæma hinni.“

Þá séu dómar gagnvart ríkinu ekki einstaklingsbundnir, heldur leiði það af jafnræðisreglu að það sama gildi um alla í sömu stöðu. „Dómurinn var mjög skýr og það eina sem hefur verið gert er að í stað þess að það tæmist úr sjóðnum einu sinni á ári þá hefur honum verið skipt upp í ársfjórðunga og tæmist þá fjórum sinnum á ári í staðinn.“

84 mínútur á mánuði í túlkaþjónustu

Páll hefur lauslega reiknað það út frá fjármununum sem veittir eru í málaflokkinn að miðað við fjölda einstaklinga sem þurfa á þjónustu túlka að halda, og þá þjónustu sem er veitt þá fái hver einstaklingur 84 mínútur á mánuði í túlkaþjónustu. „Það eru þá sautján klukkustundir á ári sem hver og einn fær að eiga samskipti við umheiminn,“ segir hann.

Páll segir jafnframt að þjónusta við fatlaða einstaklinga sé almennt eina þjónustan sem leggist af vegna fjárskorts. „Það er vel þekkt að farið sé umfram fjárheimildir og áætlanir í starfsemi hins opinbera en dómstólar hætta ekki að dæma ef farið er fram úr fárheimildum og slökkviliðið hættir ekki að slökkva elda, verkframkvæmdir halda áfram fram úr kostnaðaráætlun eins og ekkert sé. En þegar það kemur að því að tryggja mannréttindi þeirra sem mest þurfa á þeim að halda þá allt í einu hætta tannhjól framkvæmdavaldsins að snúast um leið og marki hinnar vanáætlaðu fjárheimildar er náð. Sú niðurstaða er jafnt ólögmæt og óréttlát.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka