„Stórhættulegt samfélagsmein“

Á ráðstefnunni var ný norræn skýrsla kynnt, þar sem kemur …
Á ráðstefnunni var ný norræn skýrsla kynnt, þar sem kemur meðal annars fram að löggjöf um hatursglæpi sé úrelt og hana þurfi að herða. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Þetta er stórhættulegt samfélagsmein og stórhættulegt fyrir þá sem lifa við þetta,“ segir Sema Erla Serdar, verkefnastýra Æskulýðsvettvangsins, en hún var fulltrúi UMFÍ á ráðstefnu um hatursorðræðu í Noregi á dögunum.

Á ráðstefnunni var ný norræn skýrsla kynnt, þar sem kemur meðal annars fram að löggjöf um hatursglæpi sé úrelt og hana þurfi að herða. Bæði kynin verði fyrir árásum á netinu og í svipuðum umfangi, en birtingarmyndirnar séu ólíkar eftir því hvort þolandinn er karl eða kona.

Sema tók þátt í pallborðsumræðum um ungt fólk og hatursorðræðu á netinu, en hún þekkir hatursorðræðu af eigin raun. „Í mínu tilfelli er ég kona, hálfur tyrki og hálfur útlendingur,“ segir Sema og bendir á að hún tilheyri því ýmsum minnihlutahópum sem verði harkalega fyrir barðinu á hatursorðræðu. „Hatrið er yfirleitt mest þegar verið er að ræða málefni innflytjenda, málefni fólks á flótta, kvenréttindi og femínisma,“ segir hún.

Hatursorðræða gegn konum oft öfgafyllri

Skýrsl­an sem kynnt var á ráðstefnunni ber heitið Hat och hot på nätet – en kart­läggn­ing av den rättsliga regler­ingen i Nor­d­en från ett jämställd­hets­per­spektiv, og höf­und­ur henn­ar er Moa Bla­dini, lektor í refsirétti við Gauta­borg­ar­há­skóla.

Sema Erla Serdar.
Sema Erla Serdar.

Fram kem­ur í skýrsl­unni að þegar karl­ar, yf­ir­leitt op­in­ber­ir ein­stak­ling­ar, verði fyr­ir hat­ursorðræðu á net­inu sé yf­ir­leitt um að ræða niðrandi um­mæli um færni þeirra í starfi eða of­beld­is­hót­an­ir. Þegar kon­ur verði fyr­ir árás­um á net­inu ein­kenn­ist um­mæl­in hins veg­ar af kynja­for­dóm­um og kyn­ferðis­leg­um hót­un­um og áreitn­in bein­ist frek­ar að per­són­unni sjálfri en störf­um henn­ar.

Sema segir hatursorðræðu gegn konum oft vera öfgafyllri og kynbundnari. „Og þar sem konur eru frekar þolendur þá rímar það við þá niðurstöðu að karlar séu frekar gerendur,“ segir hún. Gullna reglan eigi hins vegar að vera sú að segja ekkert á netinu sem maður geti ekki sagt framan í manneskju.

Ísland komið stutt í því að taka á hatursorðræðu

Sema segist hafa upplifað það sterkt á ráðstefnunni hversu stutt Ísland er komið í því að taka á hatursorðræðu. Hugtakið sé ekki skilgreint í almennum hegningalögum og lagaumhverfið sé ekki nógu strangt.

„Það er ekki til nein stefnumótun í þessum málum hér á meðan til dæmis Noregur er með aðgerðaráætlun um það hvernig á að berjast gegn þessu. Þar er reynt að bregðast við og koma í veg fyrir að ungt fólk tileinki sér öfgahegðun,“ segir hún og bendir á að slík hegðun sé nátengd fordómum og hatursglæpum.

„Það virðist vera að það sé oftar eldra fólk sem hagar sér svona en við eigum auðvitað að vera fyrirmyndir. Við eigum að stuðla að því að unga fólkið tileinki sér ekki hatursorðræðu og á sama tíma berjast fyrir því að það verði heldur ekki fyrir henni,“ segir hún.

„Hatursorðræðan er alltaf sú sama“

Þá segir hún að ótrúlegt hafi verið að sjá að hatursorðræðan sé nánast eins í öllum Norðurlöndunum. „Þolendurnir eru þeir sömu, hatrið er mest þegar verið er að ræða ákveðin efni og gerendur virðast eiga margt sameiginlegt,“ segir hún. „Hatursorðræðan er alltaf sú sama.“

Sema segir pallborðsumræðurnar einnig hafa endurspeglað þetta en ásamt henni tóku danskur múslimi, kólumbískur flóttamaður, transkona og fötluð tónlistarkona þátt í umræðunum. „Við vorum að lýsa okkar upplifun af hatursorðræðu á netinu, hvernig hún er, hverjar birtingarmyndirnar eru og hvernig við höfum reynt að taka á þessu,“ segir hún. Þá voru hugsanlegar lausnir ræddar.

„Við vitum hvert vandamálið er en lausnin er ekki alveg mótuð. Það eru margar mismunandi hugmyndir með tilliti til laga og þess hvar ábyrgðin liggur,“ segir hún. „Að mínu mati er þetta sameiginlegt verkefni stjórnvalda, fjölmiðla og almennings og það verður að taka á þessu áður en það verður of seint.“

„Við eigum ekki að læra að lifa með hatursorðræðu“

Loks segir Sema hatursorðræðu ala á mismunun, en það séu grundvallarmannréttindi að vera ekki mismunað. „Við eigum ekki að læra að lifa með hatursorðræðunni. Það að maður venjist þessu og lifi með þessu er galið. Við lærum ekki að lifa með því að það verði kveikt í heilu íbúðahverfunum því það er glæpur og að sama skapi eigum við ekki að læra að lifa með hatursorðræðu því hún er ofbeldi,“ segir hún og heldur áfram:

„Það er ráðist á einstaklinga og hópa og kjarna þess hver þau eru. Þetta brýtur niður sjálfsmynd og sjálfstraust fólks og í hvert skipti sem hatursorðræða er látin óáreitt er verið að brjóta niður einstaklinga. Ef við látum þetta viðgangast þá verður þetta norm í samfélaginu og það á ekki að vera þannig í lýðræðisþjóðfélagi árið 2017.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert