Ekki er búist við frekari skriðuföllum á Austfjörðum samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Eins og mbl.is fjallaði um í morgun féll aurskriða í nótt vegna vatnavaxtanna á Seyðisfirði.
Skriðan féll nærri tveimur húsum á Seyðisfirði þegar Þófalækur hljóp. Annað húsið er íbúðarhús en hitt er geymsluhúsnæði, að því er fram kemur í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Engin slys urðu á fólki en húsin höfðu verið rýmd um miðjan dag í gær vegna mikillar úrkomu.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er úrkoma búin að ganga verulega niður, en enn þá er rigning. Samkvæmt spá mun stytta upp í dag og ekki er búist við áframhaldandi rigningu á næstu dögum.
Nokkur viðbúnaður hefur verið á Austurlandi frá því í gær vegna úrkomunnar, þá sérstaklega á Eskifirði og Seyðisfirði. Þar hefur þurft að rýma hús, rjúfa vegi og moka úr ám til að létta álagi á mannvirki og forða tjóni að því er fram kemur í tilkynningunni frá Almannavörnum.
„Gríðarmikil úrkoma hefur verið á svæðinu en við þær aðstæður má búast við grjóthruni víða og jafnvel aurskriðum við ár og læki,“ segir í tilkynningunni.
Ofanflóðavakt Veðurstofunnar hefur fylgst vel með ástandi á svæðinu í náinni samvinnu við lögreglu og Almannavarnir. Þá hefur lögreglan á Austurlandi samhæft aðgerðir í samstarfi við sveitarfélögin og starfsmenn þeirra.