Íbúar í húsum við Búðará á Seyðisfirði voru beðnir að yfirgefa hús sín í gærkvöldi vegna vatnavaxta í ánni. Þetta kemur fram í frétt á vef Austurfréttar. Þekkt er að skriður komið niður farveg hennar en Veðurstofan og Vegagerðin hafa varað við skriðuföllum vegna mikillar úrkomu á Austfjörðum.
Í frétt Austurfréttar segir að íbúar í að minnsta kosti þremur húsum hafi haft náttstað annars staðar en heima hjá sér í nótt.
Vatnsmagn í fossinum í ánni var að sögn íbúanna þrefalt á við það sem hefðbundið er og bar áin stóra steina niður farveginn og köstuðust þeir niður fossinn.
Í frétt mbl.is í gærkvöld kom fram að tjón hefði orðið á nokkrum húsum vegna vatnavaxtanna.
Gröfumenn unnu að því fram yfir miðnætti í kappi við tímann, að grafa upp úr Hlíðarendaá á Eskifirði til að bjarga nýlegri brú sem vatnsflóð hamaðist á. Útlit var fyrir það í gærkvöldi að brúin héldi.
Hlíðarendaá liggur í gegnum byggðina í Eskifirði. Vegna rigninga og leysinga kom hlaup í ána.
Vatnið var kolmórautt og bar með sér mikinn aur. Menn á stórum gröfum unnu hörðum höndum að því að grafa upp úr ánni og veita henni til sjávar. Fljótlega fylltist op brúarinnar og vatn flæddi yfir brúargólfið. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, vonaðist til að ekki yrðu skemmdir á öðrum mannvirkjum en hús standa við farveg árinnar.
Áfram mun rigna duglega á norðausturhorninu fram eftir degi, en mikið mun draga úr úrkomu þar í kvöld.
„Í þessum aðstæðum er búist við talsverðu rennsli í ám og lækjum á svæðinu. Staðbundin flóð eru líkleg og aukin hætta á skriðuföllum. Ferðafólki er eindregið ráðlagt að fylgjast vel með veðurspám og fréttatilkynningum,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofunni á Facebook-síðu hennar.
Í ábendingum veðurfræðings Vegagerðarinnar er vakin athygli á því að ekki sé hægt að útiloka grjóthrun á vegi á Austfjörðum vegna vatnsveðursins.