Jón segir frá mannlífi í Uummannaq-firði

Skriðan á Grænlandi um síðustu helgi.
Skriðan á Grænlandi um síðustu helgi. Skjáskot/Kunuunnguaq Petersen Geisler

Jón Viðar Sigurðsson jarðfræðingur mun segja frá mannlífi og náttúru í Uummannaq-firði á Grænlandi í opnu húsi hjá Pakkhúsi Hróksins í dag. Um síðustu helgi urðu þar miklar náttúruhamfarir er flóðbylgja gekk á land.

Pakkhús Hróksins er við Reykjavíkurhöfn og verður opna húsið haldið milli kl. 14 og 16 í dag. Tilefnið er að fagna góðum árangri landssöfnunarinnar Vinátta í verki. Fyrstu fjóra dagana söfnuðust 20 milljónir og segja skipuleggjendur að landssöfnunin haldi áfram af fullum krafti.

Jón Viðar verður sérlegur gestur dagsins en hann er fyrrverandi formaður Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands. Hann hefur komið margoft í Uummannaq-fjörð, þar sem hamfarirnar urðu, og heimsótt öll litlu þorpin, m.a. Nuugaatsiaq, sem flóðbylgjan sópaði á haf út.

Jón Viðar mun segja í máli og myndum frá náttúru og mannlífi við Ummannaq-fjörð, og sem jarðfræðingur freista þess að útskýra hvað olli hamförunum, en þess má geta að hann hefur meðal annars helgað sig rannsóknum á berghlaupum.

Gestir eru hvattir til að mæta tímanlega. Vöfflur og kaffi verða í boði, og rennur söluandvirði óskert í söfnunina. Þá munu fulltrúar Hjálparstarfs kirkjunnar veita framlögum viðtöku.

Pakkhús Hróksins er við Geirsgötu 11, stórri vöruskemmu við hlið Hafnarbúða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert