Vilja ekki snúa til baka í þorpið

Jón Viðar Sigurðsson jarðfræðingur.
Jón Viðar Sigurðsson jarðfræðingur. Ljósmynd/Ingimundur Stefánsson

Íbúar grænlenska þorpsins Nu­uga­at­isiaq, sem varð verst úti þegar flóðbylgjur skullu á vesturströnd Grænlands 17. júní, hafa lítinn áhuga á að snúa aftur til þorpsins þegar þar að kemur. Enn um sinn stendur þorpið autt en það er eitt þriggja þorpa sem voru rýmd vegna hættu á annarri flóðbylgju. Fjölskylda með barn og eldri maður létust í flóðbylgjunni fyrir viku. 

Flóðbylgjurnar mynduðust eftir stórt berghlaup sem varð um 32 kílómetrum frá Nuugaatsiaq og tók það flóðbylgjuna aðeins átta mínútur að ferðast að þorpinu og skolaði sjö húsum á haf út og eyðilagði ellefu til viðbótar. Skriðan féll niður bratta hlíð úr um það bil þúsund metra hæð í 1.900 metra háu fjalli. Jarðskjálftinn sem mældist var vegna berghlaupsins, en ekki öfugt.

Jón Viðar Sigurðsson í Uummannaq-firði.
Jón Viðar Sigurðsson í Uummannaq-firði. Ljósmynd/Ingimundur Stefánsson

Jón Viðar Sigurðsson, jarðfræðingur og fyrrverandi formaður Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, segir Nuugaatsiaq vera veiðimannasamfélag þar sem mikið sé veitt af sel og fiski. „Þeirra helsta tekjulind er sala á grálúðu. Þeir eru með smá frystihús í þorpinu,“ segir Jón Viðar en lúðan er veidd í gegnum ís á veturna og á bátum á sumrin. Rúmlega hundrað manns búa í þorpinu og er þar skóli og verslun.

Íbúar Nuugaatsiaq voru fluttir til Uu­mann­aq með þyrlum en það er stærsti bærinn í firðinum með 1.300 íbúa. Þar var mörgum komið fyrir á heimavist á meðan aðrir fengu inn hjá vinum og vandamönnum.

Að sögn Jóns Viðars er mikið fjallað um landssafnanir Íslendinga og Færeyinga. „Grænlendingar eru gríðarlega þakklátir fyrir þennan stuðning. Fólk fylgist með og það er mikið þakklæti í okkar garð,“ segir Jón Viðar.

Fyrstu fjóra daga söfnunarinnar „Vinátta í verki“ sem Hjálp­ar­stofn­un kirkj­unn­ar, í sam­vinnu við Kalak og Hrók­inn, efndi til eft­ir ham­far­irn­ar söfnuðust 20 milljónir króna. Jón Viðar verður með erindi í Pakkhúsi Hróksins við Gömlu höfnina í Reykjavík klukkan tvö í dag. Nánar má lesa um það hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert