Kaupþings-mál komið á dagskrá Hæstaréttar

Frá aðalmeðferð í héraðsdómi í Chesterfield-málinu. F.v.: Hreiðar Már Sigurðsson, …
Frá aðalmeðferð í héraðsdómi í Chesterfield-málinu. F.v.: Hreiðar Már Sigurðsson, Almar Þór Möller hdl. og aðstoðarmaður verjanda, Sigurður Einarsson og Gestur Jónsson hrl. og verjandi Sigurðar. mbl.is/Golli

Chesterfield-málið sem einnig hefur verið nefnt CLN-málið er komið á dagskrá Hæstaréttar, en aðalmeðferð málsins er áætluð 11. október á þessu ári. Allir hinir ákærðu í málinu voru sýknaðir í héraði, en aðalmeðferð málsins við það dómstig fór fram í desember 2015 og féll dómur í janúar árið eftir. Ríkissaksóknari ákvað að áfrýja dómnum, en saksóknari frá embætti héraðssaksóknara rekur málið fyrir Hæstarétti líkt og hann gerði við héraðsdóm.

Í mál­inu voru þeir Hreiðar og Sig­urður Ein­ars­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður bank­ans, ákærðir fyr­ir stór­felld umboðssvik og fyr­ir að hafa valdið Kaupþingi „gríðarlegu og fá­heyrðu“ fjár­tóni, að því er seg­ir í ákæru. Magnús Guðmunds­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings í Lúx­em­borg, var einnig ákærður í mál­inu fyr­ir hlut­deild í umboðssvik­un­um. Voru all­ir sak­born­ing­ar sýknaðir í héraðsdómi í dag.

Þremenn­ing­arn­ir voru ákærðir fyr­ir lán til Chesterfield United Inc., Partridge Mana­gem­ent Group S.A. og eign­ar­halds­fé­laga þeirra, sam­an­lagt 510 millj­ón­ir evra haustið 2008. Það jafn­gilti nærri 70 millj­örðum króna miðað við gengi evru 7. októ­ber 2008. Telur saksóknari að féð sé allt tapað Kaupþingi.

Dóm­ur­inn tók aft­ur á móti ekki und­ir mál­flutn­ing sak­sókn­ara í mál­inu og sýknaði af ákærðu. Seg­ir í niður­stöðu dóms­ins að málið bygg­ist á því að lán hafi verið veitt án trygg­inga. „Ekki er að sjá að þessu mik­il­væga atriði hafi verið gef­inn sér­stak­ur gaum­ur í rann­sókn máls­ins,“ seg­ir í dómn­um. Þá er held­ur ekki tekið und­ir með ákæru­vald­inu að stjórn­end­urn­ir hafi stefnt fé bank­ans í veru­lega hættu. „Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna alla ákærðu af þess­um sak­argift­um,“ seg­ir um sak­argift­ir í tveim­ur af fjór­um ákæru­liðum.

Chesterfield-málið er eitt af nokkrum málum sem saksóknari hefur rekið gegn fyrrverandi stjórnendum Kaupþings. Áður hefur verið dæmt í Al Thani-málinu á báðum dómstigum. Þá voru níu starfsmenn bankans dæmdir í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings í Hæstarétti.  Í Marple-málinu ógilti hins vegar Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms og var málinu vísað í hérað til meðferðar að nýju. Fór aðalmeðferð þess máls fram í þessum mánuði og er nú beðið niðurstöðu dómsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert