Um 40 tjónstaðir á Seyðisfirði

Í flestum tilfellum lak vatn inn í hús, en einnig …
Í flestum tilfellum lak vatn inn í hús, en einnig féll aurskriða í bænum með þeim afleiðingum að mikil drulla fór inn í tvö hús bæjarins. Ljósmynd/Viðlagatryggingar Íslands

Um 40 tjónstaðir eru á Seyðisfirði eftir flóðin sem urðu þar síðustu helgi. Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatrygginga Íslands, áætlar að þar af sé um helmingur sem fellur undir bótaskyldu Viðlagatrygginga en annað sé t.d. skemmdir á lóðum og vegum sem sé ekki bótaskylt.

„Við erum búin að fá ágætis mynd á þetta í samvinnu við sveitarfélagið, um hvert umfang tjónstaða sé,“ segir Hulda en matsmenn á vegum Viðlagatrygginga halda austur á morgun.

Spurð út í tjón á Eskifirði segir hún það ekki liggja eins ljóst fyrir, en Viðlagatryggingar viti af tveimur fasteignum sem urðu fyrir skemmdum. „Annars er ekki mikið tjón sem fellur undir trygginguna hjá okkur,“ segir Hulda. Svo virðist sem einhverjar lagnir hafi skemmst undir brúnni á Eskifirði, en Hulda segir ekki víst hvort það sé bótaskylt þar sem eigin áhætta sveitarfélagsins sem tiltölulega há á sama tíma og tjónið fremur lítið.

Tjónið er meðalstórt í sögulegu samhengi flóðatjóna. Sem dæmi urðu um 50 staðir fyrir tjóni vegna flóða áramótin 2015/2016 á öllum Austfjörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert