Landssöfnunin „Vinátta í verki“, sem sett var af stað vegna náttúruhamfaranna sem urðu nýverið á Grænlandi, gengur vel og hafa þegar safnast um 27 milljónir króna. Skorað hefur verið á sveitarfélög landsins, fyrirtæki og einstaklinga til að leggja söfnuninni lið en í morgun bárust til að mynda tvær milljónir frá Kópavogsbæ. Þá voru nýir talsmenn söfnunarinnar kynntir til leiks í dag.
„Ég er bara Grænlendingur í hjartanu. Ég flutti þangað 15 ára og hef verið þar meira og minna síðan. Ég bý á Íslandi núna en kærastinn minn er grænlenskur,“ segir Ísfirðingurinn Íris Ösp Heiðrúnardóttir, talsmaður Vináttu í verki, í samtali við mbl.is
Íris og kærastinn hennar, Karl Ottesen Faurschou, sem er frá Qaqortoq á Grænlandi, voru í dag kynnt sem nýir talsmenn Vináttu í verki en vinátta og samhugur Íslands og Grænlands þeim afar hugleikin. Þau hafa tekið virkan þátt í söfnuninni frá upphafi en stefnt er að því að safna a.m.k. 50 milljónum.
Þá var í dag opnuð sölusýning á listaverkum barnanna í Barnaskólanum í Öskju en allt söluandvirði mun renna óskipt til Vináttu í verki. „Ég er stödd núna í Barnaskólanum í Reykjavík og þar voru krakkarnir að stofna til söfnunar líka. Það er búið að setja upp bauk og gera listasýningu, svona sölusýningu, til þess að safna,“ segir Íris, sem er ánægð með viðbrögðin við söfnuninni.
„Við fengum tvær milljónir í morgun frá Kópavogi þannig að það alveg tínist inn smátt og smátt,“ segir Íris. Þá hafa fleiri sveitarfélög einnig tekið við sér, Reykjavík hefur til að mynda gefið fjórar milljónir og íbúar Flateyrar hófu sína eigin söfnun í þágu málefnisins. „Við ætlum við að fara vestur á sunnudaginn og taka við þeim pening. Og það eru bara bæjarbúar Flateyrar þannig að það er æðislegt líka,“ segir Íris Ösp.
Að söfnuninni standa Hjálparstarf kirkjunnar, Kalak — vinafélag Íslands og Grænlands, og skákfélagið Hrókurinn. Númer söfnunarreikningsins er 0334-26-056200 og kennitala 450670-0499. Þá er hægt að hringja í 907 2003 og leggja þannig til 2.500 kr.