Framleiðendur kvikmyndarinnar Víti í Vestmannaeyjum eru strax farnir að finna fyrir áhuga erlendra aðila, þrátt fyrir að tökur á myndinni standi enn yfir, og væntingarnar eru ekki litlar.
„Það er ekki óeðlilegt að við gerum okkur vonir um að Víti í Vestmannaeyjum fari víða. Við erum búin að kynna myndina erlendis og höfum fundið fyrir áhuga, bæði í Þýskalandi og í Bandaríkjunum. En áhugi er ekki samningur. Það þarf ýmislegt að gerast,“ sagði Þórhallur Gunnarsson, aðalframleiðandi hjá Sagafilm, sem framleiðir kvikmyndina, í þættinum Magasíninu á K100 síðdegis í gær.
Kvikmyndin er gerð eftir samnefndri bók Gunnars Helgasonar og er hluti af bókaröð um krakka sem stunda knattspyrnu. Tökur á myndinni standa nú yfir í Vestmannaeyjum þar sem Orkumótið svokallaða fer fram. Auk myndarinnar er verið að taka upp sex sjónvarpsþætti í samstarfi við RÚV.
„Gunni er með stóra drauma og við líka og þetta eru ekki bara draumar, þetta er raunhæft,“ sagði Þórahallur og vísaði þar til höfundarins, sem gerir sér líka væntingar um velgengni myndarinnar á erlendri gruni. „Við höfum fundið fyrir áhuga og eru búin að selja íslenska sjónvarpsþætti víða um heim,“ bætti hann við.
Þórhallur segir bæði kvikmyndina og þættina framleidda með það í huga að hægt sé að taka efnið til sýninga á sjónvarsstöðvum, sem og í kvikmyndahúsum á erlendri grundu. Þá er sá möguleiki einnig fyrir hendi að hægt verði að endurgera efnið. „Það er ósjaldan sem það gerist að menn vilji setja svona upp í heimalandinu, í sínu umhverfi á sínum forsendum.“
Að sögn Þórhalls er það alltaf að verða auðveldra að koma íslensku efni á framfæri erlendis, sérstaklega eftir mikla velgengni þáttaraða á borð við Ófærð og Rétt. „Þá fara menn að spyrjast fyrir og vilja meira. Það eru tíu sjónvarpsseríur sem við erum langt komin með og við höfum á síðustu fjórum árum verið með með 24 höfunda í vinnu. Þannig við erum vel undir þetta búin. Veikasti hlekkurinn er Kvikmyndamiðstöð Íslands sem mætti koma sterkar inn í þetta. Eftirspurnin erlendis er að minnsta kosti gríðarleg.“ Þórhallur segir tíu áðurnefnd verkefni tilbúin til að fara í tökur á næstu árum, þrjú strax á næsta ári.
Kvikmyndin Víti í Vestmannaeyjum verður frumsýnd í kvikmyndahúsum hér á landi í kringum næstu páska og þættirnar verða teknir til sýninga á RÚV haustið 2018.
Fyrir þá sem ekki vita þá fjallar myndin um strákana í fótboltaliðinu Fálkum sem fara á knattspyrnumót í Vestmannaeyjum. Á fyrsta degi kynnast þeir strák úr Eyjum sem þeir óttast en komast að því að hann býr við frekar erfiðar aðstæður. Aðalsöguhetjan, Jón, hvetur sína vini til þess að hjálpa honum að koma sér út úr þessum erfiðu aðstæðum og stelpa í Fylkisliðinu verður mikil vinkona þeirra og hjálpar til. Í sjónvarpsþáttunum sem gerðir verða fær þessi stelpa, Rósa, stærra hlutverk og þar verður fylgst með hennar baráttu fyrir því að fá að spila á mótinu.