Tugir umsókna bárust flugfélaginu WOW air um stöður flugmanna í dag og í gær. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, Svanhvít Friðriksdóttir, sem segir flugfélagið þurfa að auka við mannauðinn vegna fjölgunar á þotum og áfangastöðum.
Greint var frá því á mbl.is í gær að hátt í 70 til 80 flugmenn Icelandair hefðu mættu á opinn fund fyrir flugmenn þar sem starfsemi WOW air var kynnt fyrir mögulegum umsækjendum. Fundarboðið kom skömmu eftir að fjölda flugmanna Icelandair var sagt upp störfum og tugum flugstjóra tilkynnt að þeir yrðu færðir niður í stöðu flugmanns næsta vetur.
„Við bættum við okkur fimm þotum á þessu ári og fengum síðustu afhenta í síðustu viku og gerum ráð fyrir því að flotinn verði 24 vélar á næsta ári,“ segir Svanhvít. Aðspurð segir hún að WOW air sé að bæta við fleiri áfangastöðum.
„Já, við stefnum að því að bæta við fleiri áfangastöðum á næstu mánuðum.“
Fyrsta flug WOW air til Pittsburg var farið í júní og 13. júlí verður fyrst flogið til Chicaco. Þá verður hafið áætlunarflug til Tel Aviv í september.