Hyggjast rukka við Hraunfossa

Hraunfossar falla undan Hallmundarhrauni og niður í Hvítá en Barnafoss …
Hraunfossar falla undan Hallmundarhrauni og niður í Hvítá en Barnafoss er skammt ofan við fossana. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

„Þetta er vægast sagt ekki góður hlutur. Þetta er mjög hátt gjald. Ég hef verið að koma þarna á rútu með 50-56 manns og þá er þetta komið í tæpar 7.000 krónur sem ég þarf að borga fyrir að vera þarna.“ Þetta segir rútubílstjórinn Gísli Reynisson en landeigendur við Hraunfossa hyggjast hefja gjaldtöku fyrir bílastæðinu við þennan vinsæla áfangastað ferðamanna á morgun. Svæðið er friðlýst og er óheimilt að taka þar gjald, nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Slíkt leyfi hefur ekki fengist samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni. 

Gísli fer oft að Hraunfossum sem rútubílstjóri með farþega og er allt annað en hrifinn af ákvörðun landeigenda. „Bílaplanið þarna er löngu sprungið og það var búið að úthluta úr framkvæmdasjóði ferðamála 22 milljónum í það verkefni að endurbæta planið,“ segir Gísli. Landeigendur hyggist þó sjálfir rukka fyrir bílastæði.

„Og þeir setja 120 krónur á haus í rútu sem að þýðir það að þeir ætla greinilega að telja út úr bílunum,“ segir Gísli. Sjálfur hyggst hann ekki greiða gjaldið að óbreyttu þegar hann ekur með ferðamenn á staðinn.

Svæðið friðlýst

Hraunfossar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1987 en þeir falla undan Hallmundarhrauni niður í Hvítá. Þá er Barnafoss skammt ofan við Hraunfossa sem ekki síður laðar að sér ferðamenn. 

Um náttúruvættið gilda þær reglur að mannvirkjagerð og jarðrask á svæðinu séu háðar leyfi Umhverfisstofnunar. Umferð um friðlýsta svæðið er öllum heimil svo lengi sem gætt er umgengni samkvæmt sömu reglum. Þá er akstur utan vega og merktra ökuslóða óheimill auk þess sem óheimilt er að skerða gróður, trufla dýralíf eða raska jarðmyndunum. Til undanþágu frá reglum þessum þarf leyfi Umhverfisstofnunar.

„Þessir fossar eru samkvæmt lögum í umsjá Umhverfisstofnunar og það er óheimilt að taka gjald af þjónustu eða bílastæðum þarna nema að til komi umsjónarsamningur við Umhverfisstofnun,“ segir Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, í samtali við mbl.is. Slíkur samningur hefur hingað til ekki verið til umræðu milli Umhverfisstofnunar og landeigenda að sögn Ólafs.

Allt að 500 þúsund kr. sekt fyrir óheimila gjaldtöku

„Við fengum tilkynningu frá fulltrúum landeigenda í morgun um að það væri stefnt að þessu og við höfum verið að vinna að því að afla upplýsinga og munum koma út bréfi í dag með formlegri tilkynningu til landeigenda,“ segir Ólafur.

Samkvæmt náttúruverndarlögum er í gildi ákvæði sem heimilar Umhverfisstofnun að leggja á sektir vegna óheimilar gjaldtöku. Dagsektir geta varðað allt að 500 þúsund krónum á dag.

„Það sem að liggur fyrir er að Umhverfisstofnun getur sent áskorun á landeigendur um að hætta við fyrirhugaðar gjaldtökur og getur þá bent þeim á að það sé heimildarákvæði í náttúruverndarlögum um að það megi sekta,“ segir Ólafur.

Umhverfisstofnun óskaði á sínum tíma eftir fjármagni til að gera tímabærar lagfæringar á bílastæðinu á svæðinu sem væru í samræmi við gildandi deiliskipulag. Samþykkt var beiðni um fjármagn til verkefnisins, 22 milljónir króna, en að sögn Ólafs mun stofnunin nú taka upp þráðinn með landeigendum og fara ítarlega yfir málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert