Vettvangsskoðun óháðra matsmanna á vegum Viðlagatryggingar Íslands vegna atburðanna sem urðu á Seyðisfirði og Eskifirði um síðustu helgi er nú lokið. Upplýsingar liggja fyrir um tjón á 20 fasteignum og átta innbúum og/eða lausafé. Heildartjón og kostnaður vegna matsstarfa er áætlaður á bilinu 80-100 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðlagatryggingum. Þá kemur fram að unnið sé að gerð tjónamats og gert sé ráð fyrir að niðurstaða þess liggi fyrir upp úr miðjum júlí.
Föstudaginn 23. júní barst tilkynning um að flóð væri hafið á Seyðisfirði og að vatn væri komið í kjallara nokkurra húsa. Mest flóð voru úr Dagmálalæk og Fjarðará, en einnig úr öðrum minni lækjum fyrir ofan Seyðisfjörð. Um kvöldmatarleitið á föstudag féll aurskriða á Eskifirði, í hlíðinni ofan við Steinholtsveg. Hún olli flóði í Hlíðarendaá og barst mikið magn af aur og grjóti niður farveg árinnar. Talið var að allt að nokkur þúsund rúmmetrar af möl og grjóti hafi komið með flóðinu.
Laugardagsmorguninn 24. júní féll síðan aurskriða úr fjallshlíð Strandartinds, ofan við Fjarðarströnd, utarlega í Seyðisfjarðarkaupstað. Skriðan fór yfir Strandarveg og lokaði honum, auk þess sem hún féll á eitt íbúðarhús og verksmiðjuhúsnæði Síldarvinnslunnar.