Rúm hálf milljón króna safnaðist á fjórum dögum í söfnun sem björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri efndi til meðal Flateyringa vegna hamfaranna á Grænlandi. Söfnunarféð var afhent á Flateyri í gær.
Björgunarsveitin Sæbjörg efndi til söfnunar í þágu íbúa Nuugaatsiaq síðastliðinn miðvikudag en með henni vildu Flateyringar endurgjalda þann stuðning sem Grænlendingar sýndu þeim í kjölfar snjóflóðsins árið 1995.
„Grænlendingar studdu dyggilega við bakið á okkur og okkar samfélagi í kjölfar snjóflóðsins árið 1995 og var sá stuðningur ómetanlegur,“ sagði í tilkynningu frá björgunarsveitinni í síðustu viku.
Heildarupphæðin, 518 þúsund krónur, var afhent landssöfnuninni Vinátta í verki í gær klukkan 15 fyrir framan leikskólann á Flateyri, en leikskólinn var á hættusvæði þegar snjóflóðið féll 1995. Flateyringar fengu því nýjan leikskóla að gjöf frá Færeyingum eftir flóð.
Þau Íris Ösp Heiðrúnardóttir og Karl Ottosen Faurschou, talsmenn söfnunarinnar, tóku á móti söfnunarfénu.
Landssöfnunin Vinátta í verki er enn í fullum gangi, en á aðeins tólf dögum hafa safnast vel yfir 30 milljónir króna, með framlögum frá þúsundum einstaklinga, fyrirtækja, klúbba og félaga.
Fjórir fórust og gríðarlegt eignatjón varð þegar flóðalda gekk yfir smáþorpið Nuugaatsiaq aðfaranótt 18. júní. Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands, hefur nú lýst því yfir að Nuugaatsiaq verði mannlaust að minnsta kosti í eitt ár. Grunnskóli þorpsins, rafstöðin og verslunin voru meðal þeirra bygginga sem aldan ógurlega hrifsaði til sín, auk einbýlishúsanna. Íbúarnir, sem voru innan við hundrað, eru flestir í Uummannaq, 1.400 manna bæ í grenndinni, og er vel um alla hugsað.
Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á reikning: 0334-26-056200 kt. 450670-0499.
Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur.