Flateyringar söfnuðu hálfri milljón

Liðsmenn björgunarsveitarinnar Sæbjargar afhenda talsmönnum söfnunarinnar rúmar 500 þúsund krónur …
Liðsmenn björgunarsveitarinnar Sæbjargar afhenda talsmönnum söfnunarinnar rúmar 500 þúsund krónur sem söfnuðust. mbl.is/Ingileif

Rúm hálf milljón króna safnaðist á fjórum dögum í söfnun sem björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri efndi til meðal Flateyringa vegna hamfaranna á Grænlandi. Söfnunarféð var afhent á Flateyri í gær. 

Björgunarsveitin Sæbjörg efndi til söfnunar í þágu íbúa Nuugaatsiaq síðastliðinn miðvikudag en með henni vildu Flateyringar endurgjalda þann stuðning sem Grænlendingar sýndu þeim í kjölfar snjóflóðsins árið 1995.

„Grænlendingar studdu dyggilega við bakið á okkur og okkar samfélagi í kjölfar snjóflóðsins árið 1995 og var sá stuðningur ómetanlegur,“ sagði í tilkynningu frá björgunarsveitinni í síðustu viku.

Heildarupphæðin, 518 þúsund krónur, var afhent landssöfnuninni Vinátta í verki í gær klukkan 15 fyrir framan leikskólann á Flateyri, en leikskólinn var á hættusvæði þegar snjóflóðið féll 1995. Flateyringar fengu því nýjan leikskóla að gjöf frá Færeyingum eftir flóð.

Þau Íris Ösp Heiðrúnardóttir og Karl Ottosen Faurschou, talsmenn söfnunarinnar, tóku á móti söfnunarfénu.

Flateyringar afhentu framlag sitt í landssöfnuninni „Vinátta í verki“ vegna …
Flateyringar afhentu framlag sitt í landssöfnuninni „Vinátta í verki“ vegna hamfaranna á Grænlandi. Ljósmynd/Hrókurinn

Lands­söfn­un­in Vinátta í verki er enn í fullum gangi, en á aðeins tólf dög­um hafa safn­ast vel yfir 30 millj­ón­ir króna, með fram­lög­um frá þúsund­um ein­stak­linga, fyr­ir­tækja, klúbba og fé­laga. 

Fjór­ir fór­ust og gríðarlegt eigna­tjón varð þegar flóðalda gekk yfir smáþorpið Nu­uga­atsiaq aðfar­anótt 18. júní. Kim Kiel­sen, for­sæt­is­ráðherra Græn­lands, hef­ur nú lýst því yfir að Nu­uga­atsiaq verði mann­laust að minnsta kosti í eitt ár. Grunn­skóli þorps­ins, raf­stöðin og versl­un­in voru meðal þeirra bygg­inga sem ald­an ógur­lega hrifsaði til sín, auk ein­býl­is­hús­anna. Íbú­arn­ir, sem voru inn­an við hundrað, eru flest­ir í Uummann­aq, 1.400 manna bæ í grennd­inni, og er vel um alla hugsað.

Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á reikning: 0334-26-056200 kt. 450670-0499. 

Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert