Ríkissaksóknari hefur gert þá tillögu til dómsmálaráðherra að sekt fyrir notkun farsíma án handfrjáls búnaðar verði 40 þúsund krónur. Þetta kemur fram í skriflegu svari Jennýjar Heiðu Björnsdóttur, skrifstofustjóra Ríkissaksóknara.
Þetta er áttfalt á við núverandi sekt, en ökumenn sem nota farsíma undir stýri eru í dag sektaðir um fimm þúsund krónur. Sektin hefur ekki hækkað síðan 2006. Árlega eru um 500 ökumenn kærðir fyrir notkun farsíma undir stýri, en mest hafa rúmlega 900 verið kærðir á einu ári fyrir brotið.