Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í Marple-málinu svokallaða í annað sinn í dag en Hæstiréttur ómerkti fyrri dóm héraðsdómsins því Ásgeir Brynjar Torfason, sérfróður meðdómsmaður, var úrskurðaður vanhæfur vegna ummæla hans og athafna á samfélagsmiðlum þar sem hann lýsti eindreginni afstöðu sinni um málefni Kaupþings og stjórnenda bankans.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, var dæmdur í 12 mánaða fangelsi en í dómnum sem var ómerktur var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, var dæmdur í 18 mánaða fangelsi líkt og áður. Skúli Þorvaldsson var dæmdur í sex mánaða fangelsi líkt og í fyrri dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem var ómerkur.
Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, var sýknuð líkt og áður.
Í ákæru sérstaks saksóknara voru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, sögð hafa skipulagt og framkvæmt fjárdrátt og umboðssvik með því að hafa fært um 8 milljarða úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple Holding S.A. SPF.
Félagið er skráð í Lúxemborg, en það er í eigu fjárfestisins Skúla Þorvaldssonar. Var Skúli einn af stærstu viðskiptavinum bankans fyrir fall bankans og í stóra markaðsmisnotkunarmálinu var meðal annars ákært fyrir lánveitingar til félags í hans eigu. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, er í málinu ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum, meðan Skúli er ákærður fyrir hylmingu.
Í málinu voru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri í Kaupþingi, og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, var aftur á móti ákærður fyrir hlutdeild í sömu brotum, og fjárfestirinn Skúli Þorvaldsson ákærður fyrir hylmingu og peningaþvott.
Símon Sigvaldsson héraðsdómari var dómsformaður málsins eins og við fyrri umferð þess, Kristrún Kristinsdóttir meðdómari og Jón Hreinsson sérfróður meðdómari.