Karlmaður sem hleypti af fjórum skotum í Naustahverfi á Akureyri í mars í fyrra var sýknaður í Héraðsdómi Norðurlands eystra í dag. Maðurinn er metinn ósakhæfur en er gert að sæta læknismeðferð. RÚV greindi fyrst frá.
Lögreglan á Akureyri greindi frá því eftir að maðurinn hleypti skotunum af að hann ætti við andleg veikindi að stríða. Hann mun hafa hleypt minnst fjórum skotum af haglabyssu sem hæfðu mannlausa bifreið við hús hans og gler við útihurð á nærliggjandi íbúð.
Enginn slasaðist í skotárásinni og ekki er talið að atlagan hafi beinst gegn neinum ákveðnum einstaklingi. Hinn handtekni hefur ekki áður komið við sögu lögreglu vegna viðlíka mála og er talið víst að veikindi hans séu ástæða þess hvernig fór.