Verðandi skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla fagnar heildstæðri endurskoðun á menntakerfinu og hefur skilning á því að stjórnvöld skoði sameiningu námsbrauta. Hins vegar þótti honum vinnubrögð menntamálaráðuneytisins við athugun á kostum og göllum sameiningar Fjölbrautarskólans í Ármúla og Tækniskólans óvönduð.
Ekki verður af sameiningu FÁ og Tækniskólans líkt og fram kom á mbl.is í gær. Í samtali við Morgunblaðið segir Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra það aldrei hafa verið ákveðið að sameina skólana, heldur einungis kannaður möguleikinn á því. Ytra mat á þau gögn sem lágu fyrir sýni aftur á móti að frekari rökstuðning þurfi til þess að mæla með sameiningu skólanna.
„Í ljósi þess þá er ég ekki að dvelja lengur við þetta og ákvað að létta þessari óvissu,“ er haft eftir Kristjáni í Morgunblaðinu í dag.
Ólafur H. Sigurjónsson, sem tekur við sem skólameistari FÁ þann 1. ágúst, segir nokkra kennara skólans hafa sagt upp vegna óvissunnar, en umsóknir hafi borist í öll störfin sem FÁ auglýsti laus til umsóknar. Hann segir allt vera í eðlilegu horfi hjá skólanum.
„Það er allt klárt, við erum búin að vera að auglýsa eftir kennurum og erum búin að fá umsóknir í allt. Þannig allt er í fínu lagi,“ segir hann en skólasetningin verður 16. ágúst næstkomandi.
Að sögn Ólafs er mikilvægt að horfa á gæði náms heildstætt en ekki einstaka skóla. „Eins og við segjum við okkar nemendur. Veljið ykkur fyrst nám, og svo skóla,“ segir Ólafur. Hann segir að staða skólameistara við skólann verði auglýst á næstunni. Telur hann það gefa fyrirheit um að af sameiningu verði ekki á allra næstu árum hjá FÁ.
Leiðrétt: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var Ólafur H. Sigurjónsson titlaður skólameistari FÁ. Hið rétta er að hann er aðstoðarskólameistari en tekur við sem skólameistari þann 1. ágúst nk.