„Það er nú eiginlega dautt í þessu en við erum samt svona aðeins að skoða hvort að það sé hægt að komast að þessu með kranabíl til þess að slökkva í glæðum,“ segir Gunnar Eyjólfsson, varðstjóri hjá Brunavörnum Rangárvallasýslu, í samtali við mbl.is. Gunnar er staddur í Þykkvabæ þar sem eldur kom upp í vindmyllu um hádegisbilið í dag.
Körfubíll frá Brunavörnum Árnessýslu er kominn á staðinn en sem stendur er verið að kanna aðstæður betur. „Við erum aðeins að taka vindstöðuna vegna þess að það er ekki hægt að setja upp stigann í miklum vindi,“ segir Gunnar.
Lítill sem enginn eldur logar lengur í vindmyllunni og kann að vera að hann verði alveg slokknaður þegar hægt verður að komast upp að mótorhúsinu þar sem talið er að eldurinn hafi átt upptök sín. „Það er nánast brunnið til kaldra kola mótorhúsið. Húsið er eiginlega horfið, það eru bara spaðarnir eftir uppi og leifarnar af rafalnum,“ segir Gunnar.
„Við verðum hérna eitthvað áfram, að tryggja að það sé ekki fólk mikið að þvælast hingað því maður veit ekki hvort að spaðar og annað gætu farið að detta af þessu,“ segir Gunnar.