„Þetta er fyrst og fremst sorglegt,“ segir Steingrímur Erlingsson, framkvæmdastjóri Biokraft sem á myllurnar í Þykkvabæ. Upp kom eldur í annarri myllunni fyrr í dag og virðist sem myllan sé stórskemmd eftir brunann. Myllan er jafnhá Hallgrímskirkju í hæsta punkti.
Um það bil vika er síðan almenn yfirferð var farin í vélarrými myllunnar. „Ég hef ekki hugmynd um hvað hefur getað valdið þessu,“ segir Steingrímur en það var hann sjálfur sem fór síðastur manna upp í vindmylluna.
Hann segir það vissulega stundum koma fyrir að það kvikni í vindmyllum en það sé ekki meira um það í vindmyllum af þeirri tegund sem Biokraft notar en það eru danskar Vestas vindmyllur. „Það er algengast að það sem valdi svona bruna er að eitthvað brenni yfir í rafala, stýringunni,“ segir Steingrímur.
Steingrímur var að leggja í hann austur þegar mbl.is náði af honum tali. Hann segir það skipta mestu máli núna að engan hafi borið skaða af, hvorki menn né skepnur, og vonandi komi fljótlega í ljós hvað hafi ollið brunanum, sem sjónarvottar segja að hafi byrjað efst í vindmyllunni. „Það er engin hætta á ferðum,“ segir Steingrímur.