Refsiaðgerðir Rússa gegn Íslandi framlengdar

Í samræmi við tilskipun Vladímír Pútín, forseta Rússlands, hefur ríkisstjórn …
Í samræmi við tilskipun Vladímír Pútín, forseta Rússlands, hefur ríkisstjórn Rússa framlengt innflutningsbann á ákveðnum tegundum matvæla frá ríkjum sem höfðu sett viðskiptabann á Rússland. AFP

Í samræmi við tilskipun Vladímír Pútín, forseta Rússlands, hefur ríkisstjórn Rússa framlengt innflutningsbann á ákveðnum tegundum matvæla frá ríkjum sem hafa sett viðskiptabann á Rússland. Með þessu eru refsiaðgerðir Rússa gegn meðal annars Íslandi framlengdar til loka ársins 2018. Yfirlýsing þess efnis var birt á vefsíðu rússneskra stjórnvalda í gær. Rússneska fréttastofan Tass greinir frá.

Samkvæmt þessu leggja Rússar bann við innflutningi á tilteknum landbúnaðarafurðum, hráefnum og matvælum, frá Bandaríkjunum, Evrópusambandsríkjunum, Kanada, Ástralíu, Noregi, Úkraínu, Albaníu, Svartfjallalandi, Íslandi og Liechtenstein. Bannið hefur nú verið framlengt til ársloka 2018.

Að sögn rússneskra stjórnvalda eru þetta mótvægisráðstafanir gagnvart þeim ríkjum sem eru í refsiaðgerðum gegn Rússlandi. Viðskiptaþvingunum Vesturlanda gagnvart Rússlandi var komið á árið 2014 vegna stríðsátakanna í Úkraínu og innlimunar Krímskaga í Rússland.

Vesturlönd og fleiri ríki hafa hafnað innlimun Krímskaga. Þessar aðgerðir gegn Rússlandi hafa síðan verið framlengdar reglulega. Sama ár svaraði Rússland þeim með því að setja bann við innflutningi á tilteknum tegundum landbúnaðarafurða frá þeim löndum sem tóku þátt í refsiaðgerðum.

Mikil áhrif á íslenskan sjávarútveg

Viðskiptabann Rússa hefur haft talsverð áhrif á íslenskan sjávarútveg og hafa forsvarsmenn hans gagnrýnt stuðning Íslands við viðskiptaþvinganirnar. Mikið var fjallað um málið í fjölmiðlum árið 2015 þegar Íslandi var bætt á lista þeirra ríkja sem Rússar beita viðskiptaþvingunum gegn.

Ýmsir íslenskir þingmenn hafa einnig verið mjög gagnrýnir á stuðning Íslands við viðskiptaþvinganirnar gagnvart Rússum. Þannig sagði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í ágúst 2015 að Ísland eigi að hætta að styðja viðskiptaþvinganirnar og taka landið þannig af lista yfir þjóðir sem vilja viðskiptabann á Rússa.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tjáði sig um viðskiptabann Íslendinga …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tjáði sig um viðskiptabann Íslendinga gegn Rússum árið 2015. „Fyrir smáþjóð í hörðum heimi gengur ekki bara að vera eins og einhverjir siðapostular eða hreinar meyjar sem feta hinn þrönga veg dyggðarinnar.“ mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Viðskiptahagsmunir fram yfir siðferðileg álitamál

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur blandaðist inn í málið árið 2015. Í viðtali við Ríkisútvarpið benti hann meðal annars á að íslensk stjórnvöld hafi oftar valið viðskiptahagsmuni fram yfir siðferðileg álitamál. Það sé þó vandasamt fyrir smáríki að velja ávallt þá leið.

„Fyrir smáþjóð í hörðum heimi gengur ekki bara að vera eins og einhverjir siðapostular eða hreinar meyjar sem feta hinn þrönga veg dyggðarinnar. Menn verða að hugsa aðeins um hagsmuni landsins í bráð og lengd. Að því sögðu, hvað skiptir meira máli til lengri tíma; sala á makríl eða heimsástandið eða ofríki rússneskra ráðamanna?“ sagði sagnfræðingurinn og núverandi forseti Íslands um málið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert