Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur sent frá sér tilkynningu þar sem það er ítrekað, sem áður hafi komið fram, að engin hætta sé á því að mengun berist að útivistarsvæðinu í Nauthólsvík þegar neyðarlúgur séu opnar í fráveitudælustöðinni í Faxaskjóli.
„Heilbrigðiseftirlitið tók sýni í sjónum 6. júlí og skv. staðfestum niðurstöðum frá Mæliþjónustu Matís ohf. voru saurgerlar 1/100 ml. Heilbrigðiseftirlitið tók einnig sýni í gær, 7. júlí, og bráðabirgðaniðurstaða úr því er sú sama,“ segir í tilkynningu.
S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs Reykjavíkur, sagði í samtali við mbl.is í gær, að hann teldi eftir á að hyggja að það hefði verið heppilegra að láta vita fyrr af bilun skólpdælustöðvar við Faxaskjól. Í hádeginu í gær mældist gerlamagn austan við skólpdælustöð við Faxaskjól yfir viðmiðunarmörkum.
Áður hafði verið greint frá því að dælustöðin hafi verið biluð í tíu sólahringa og á þeim tíma flæddu á hverri sekúndu 750 lítrar af óhreinsuðu skólpi út í hafið.
Björn bendir á að tilkynningar sem þessar séu á forræði heilbrigðiseftirlits. Umræðan hafi verið á þá leið að af þessu hefði mátt láta vita fyrr. „Heilbrigðiseftirlit starfar á grundvelli ákveðinna laga og hefur mikið sjálfstæði. Við erum búin að fara yfir þetta með heilbrigðiseftirlitinu og það mat það sem svo að það stafaði ekki hætta af þessu. Hins vegar er þetta ógeðfellt fyrir fólk.“
Uppfært klukkan 13:10
Fram kemur á vef Rúv, að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segist fyrst hafa frétt af skólpmengun við Faxaskjól í fjölmiðlum, þótt skólpdælukerfi borgarinnar hafi verið bilað dögum saman og mörg hundruð milljónir lítra af skólpi hafi flætt í fjöruna.