Hafði ekki upplýsingar á undan öðrum

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir að hann hafi ekki haft upplýsingar á undan öðrum um að verulegu magni skólps væri sturtað í hafið vegna bilunar í skólpdælustöð við Faxaskjól. Hann hafi fyrst frétt um það í fjölmiðlum að skólp hafi lekið í fjöruna vegna viðgerðar á lúgu dælunnar.

„Fréttamaður hringir í mig á miðvikudaginn og ég vissi þá ekkert um hvað væri að ræða og vísa því á Orkuveituna. Síðan tjái ég mig um málið daginn eftir, miðað við þær upplýsingar sem Orkuveitan gaf kvöldið áður. Þannig að það er alveg út í bláinn að halda því fram að ég hafi vitað af þessu áður en þetta kom fram í fjölmiðlum,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is.

Hann vísar til ummæla sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, lét falla í samtali við mbl.is fyrr í dag. „Mér finnst fyllsta ástæða að fara yfir þetta allt sam­an. Það hef­ur komið fram að eini borg­ar­full­trú­inn sem vissi af þessu var Kjart­an Magnús­son en hvorki Veit­ur né aðrir upp­lýstu borg­ar­búa eða aðra borg­ar­full­trúa um það fyrr en málið var komið í fjöl­miðla,“ sagði Dag­ur.

Spurður um hvort einhver þurfi að sæta ábyrgð á málinu segir Kjartan að það sé réttast að fara vel yfir málið fyrst.

„Ég held að það sé best að við förum yfir þetta, ég er alveg sammála því mati. Skilgreina og fara yfir verkferlana og skilgreina reglur upp á nýtt, hvort að það sé ekki rétt að taka fram þegar viðgerð dregst svo á langinn og magni sturtað út með þeim hætti, að þá sé rétt að greina frá því til almennings.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert