Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segist ætla að láta fara yfir það hvers vegna skólpdælustöðin við Faxaskjól í Reykjavík bilaði til að tryggja að svona lagað gerist ekki aftur. „En það er auðvitað mikilvægt að við fáum upplýsingar um svona mál þannig að við getum brugðist við þeim.“
Dagur segir í samtali við mbl.is, að það sé búið að stöðva flæði skólps og Veitur muni gefa út eftir helgi hvernig viðgerðinni miði og Heilbrigðiseftirlitið mun vakta þetta áfram.
Þegar hann er spurður að því hvort hann telji að einhver þurfi að sæta ábyrgð vegna málsins segir Dagur:
„Mér finnst fyllsta ástæða að fara yfir þetta allt saman. Það hefur komið fram að eini borgarfulltrúinn sem vissi af þessu var Kjartan Magnússon [borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins] en hvorki Veitur ná aðrir upplýstu borgarbúa eða aðra borgarfulltrúa um það fyrr en málið var komið í fjölmiðla,“ segir Dagur.
„Ég tel að það þurfi að fara vel yfir þetta til þess að draga af þessu lærdóm. Sérstaklega þegar viðgerð dróst á langinn þá hefði að mínu mati verið algjörlega nauðsynlegt að segja frá þessu, jafnvel þó að Heilbrigðiseftirlitið hefði metið það þannig að ekki væri um hættu að ræða, til þess að halda fólki upplýstu,“ segir hann ennfremur.
Spurður hvort það hefði átt að tilkynna almenningi stöðu mála segir Dagur að það hefði verið eðlilegt og aðrir innan Orkuveitu Reykjavíkur séu því sammála.
„Það virðist hafa vera litið þannig á þetta að það væri mjög tímabundið og það kom ekki sá tími að fólk var upplýst þó að þetta drægist á langinn.“